Fara í efni

Frumsýning - Sjeikspír eins og hann leggur sig!

Leikfélag Akureyrar frumsýnir í kvöld gamanleikritið Sjeikspír eins og hann leggur sig!

Verkið hefur farið sigurför um heiminn og var m.a. sýnt í 9 ár í röð á West End í London. Það naut einnig fádæma vinsælda fyrir 17 árum í sviðsetningu Leikfélags Íslands. Nú hefur Vandræðaskáldið Vilhjálmur B. Bragason þýtt verkið og aðlagað upp á nýtt fyrir Leikfélag Akureyrar og hinn nýstofnaða leikhóp Sjeikfélag Akureyrar, sem gerir heiðarlega tilraun til að komast í gegnum öll 37 verk Shakespeare á aðeins 97 mínútum. Það er ekkert víst að það mistakist.

Að uppsetningunni kemur blanda heimafólks og fólks sem hefur áður gert sig heimakomið á Akureyri. Í leikarahópnum eru Akureyringarnir Sesselía Ólafsdóttir, Vandræðaskáld, og Jóhann Axel Ingólfsson, sem er nýsnúinn aftur heim eftir að hafa lokið leiklistarnámi í New York. Auk þeirra er í leikarahópnum Benedikt Karl Gröndal, sem skemmt gestum Samkomuhússins í verkum eins og gamanleiknum Þetta er grín, án djóks og Pílu Pínu. Í leikstjórastólnum er svo Ólafur Egill Egilsson, sem sló heldur betur í gegn á fjölum Samkomuhússins þegar hann fór með hlutverk Fagin í Óliver! veturinn 2004-2005. Ólafur hefur notið mikillar velgengni sem leikstjóri, leikari og handritshöfundur. Nýverið leikstýrði hann m.a. Kartöfluætunum eftir Tyrfing Tyrfingsson og eigin leikgerð á verkinu Brot úr hjónabandi.

Sjeikspír eins og hann leggur sig! er 325. sviðsetning Leikfélags Akureyrar en sú fyrsta þar sem reynt er að komast í gegnum öll verk sjálfs Shakespeare á ævintýralegum hraða eða afturábak með galsa, leikhúsbrellum, söng og tónum.

Til baka