Fara í efni

Frumsýning FML á föstudaginn

Leikfélag unga fólksins frumsýnir nýja leikverkið FML (fokk mæ læf) nú á föstudaginn, 23. ágúst kl. 17. FRÍTT er fyrir 16 ára og yngri.

Leikfélag unga fólksins er nýtt atvinnuleikhús á Akureyri þar sem krakkar fá tækifæri til að vinna í faglegu umhverfi og segja sögur úr sínum raunveruleika. Leikhópurinn er skipaður sjö ungum stúlkum á aldrinum 14 til 16 ára og það er Vala Fannell sem leikstýrir.

Í FML er áhorfendum gefin innsýn í reynsluheim unglinga. Teknar eru fyrir þær margslungnu hindranir og áskoranir sem móta sjálfsmynd unglingsáranna eins og t.d. einelti, kvíði, líkamsímynd, kynvitund, samfélagsmiðlar og almenn samskipti við jafningja sem og fullorðna.

Vonin er að verkefnið stuðli að lýðræðislegri virkni barnanna í samfélaginu og verði þar með hluti af forvarnarstafi þar sem þessi aldurshópur fær tækifæri til að láta til sín heyra og tjá sig um þau málefni sem liggja þeim á hjarta. Þess vegna er öllum ungmennum 16 ára og yngri boðið að sjá sýninguna að kostnaðarlausu.

Sýningar í Samkomuhúsinu í ágúst - miðasala í fullum gangi á mak.is.

Til baka