Fara í efni

Frumsýning á Fullorðin færist til 4. desember

Frumsýningu Leikfélags Akureyrar á gamanverkinu Fullorðin hefur verið frestað til 4. desember sökum hertra sóttvarnareglna. Fullorðin er sprenghlægilegur gamanleikur um það skelfilega hlutskipti okkar allra að verða fullorðin og misheppnaðar tilraunir okkar til að sannfæra aðra um að við séum það. Leikstjóri verksins er Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir en leikarar eru Vilhjálmur B. Bragason, Birna Pétursdóttir og Árni Beinteinn Árnason. Höfundar verks eru leikararnir og teymið.

Leikstjórinn segir sýninguna fjalla um væntingar vs. raunveruleika fullorðinsáranna.

„Að fullorðnast er eins og að kaupa galakjól af AliExpress fyrir mikilvægan viðburð. Myndin af kjólnum er glæsileg en svo færðu hann í hendurnar og hann reynist líta út eins og notað hárnet úr eldhúsinu á Greifanum. Og þú átt ekkert annað til að fara í,“ segir Hekla Elísabet.

Eftir langt og strangt tímabil af heimfaraldri verður kærkomið að koma saman og hlæja. Birna segir að ef einhver sýning eigi erindi núna sé það þessi sýning, sýning sem fái fólk til að hlæja. „Það er einmitt það sem við þurfum öll mest á að halda núna um stundir. Að því leyti til er þetta svona samfélagsverkefni af okkur hálfu, ekki samfélagsþjónusta, mjög mikilvægt að gera greinarmun á því. Við höfum ekki verið dæmd fyrir neitt… ennþá.“

Miðasala er hafin á mak.is. Hugmyndavinna og handrit sýningarinnar hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði SSNE.

Til baka