Fara í efni

Frumsýning á föstudaginn

Verðlaunasöngleikurinn Vorið vaknar verður frumsýndur í Samkomuhúsinu á föstudagskvöldið. Marta Nordal leikstýrir en söngleikurinn hefur farið sigurför um heiminn síðan hann var frumsýndur á Broadway árið 2006 þar sem hann hlaut átta Tony verðlaun. 

Aðalleikarar eru Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Þorsteinn Bachmann, Rúnar Kristinn Rúnarsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir. Aðrir leikarar eru Ahd Tamimi, Ari Orrason, Árni Beinteinn Árnason, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Eik Haraldsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir.

Vorið vaknar er nú sett upp í fyrsta sinn í atvinnuleikhúsi á Íslandi. Hrífandi söngleikur sem fjallar um tilfinningarnar sem berjast innra með okkur á unglingsárunum, þrá eftir frelsi, vináttuna, samskipti, varnarleysi, fyrstu ástina og baráttuna um að komast af í hörðum heimi. 

Um tónlistina sér Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, leikmynd og búningar eru í höndum Auðar Aspar Guðmundsdóttur, danshöfundur er Lee Proud, lýsingarhönnuður er Ólafur Ágúst Stefánsson, hljóðhönnuður er Gunnar Sigurbjörnsson, sýningarstjóri er Þórunn Geirsdóttir en Salka Guðmundsdóttir þýddi söngleikinn. 

Miðasala er í fullum gangi hér á mak.is.

Til baka