Frábær Fiðringur
Það var frábær stemning í Hofi í gær en þá fór Fiðringur á Norðurlandi fram í fjórða sinn. Í ár tóku níu skólar þátt eða um 120 nemendur samtals og það var frábært að sjá ungmennin blómstra á sviðinu í leik, dansi, söng og hljóðfæraleik og ekki má gleyma tæknifólki liðanna sem aðstoðaði fagmennina í Hofi með ljós og hljóð. Umfjöllunarefnin voru oft á tíðum þung og unga fólkinu okkar liggur greinilega mikið á hjarta og magnað hvernig þau ná að túlka það með sköpunargáfu sinni.
Sigurvegari 2025 er nýliðinn í Fiðringi: Grunnskóli Húnaþings vestra með atriðið„Saga okkar, rödd okkar" og fjallar um baráttu kvenna í gegnum tíðina en þetta er í fyrsta sinn sem skóli á Norðurlandi vestra tekur þátt. Vonandi bætast fleiri skólar þaðan við að ári. í öðru sæti lenti Síðuskóli með atrðið „Það sem gerist í sjónum" og í þriðja sæti lenti Borgarhólsskóli með atriðið „Þöggun". Lára Halldóra Eiríksdóttir fulltrúi SSNE afhendi þeim farandverðlaunagrip Fiðrings sem þau hafa hjá sér næsta árið en SSNE er aðalbakhjarl Firðings ásamt Menningarfélagi Akureyrar.
Verðlaun fyrir góða, skemmtilega eða óvænta notkun á íslenskunni hlaut Glerárskóli fyrir atriðið sitt „Lognið á undan storminum".
Kynnarnir Hákon Snorri Rúnarsson og Vilté Petkuté héldu uppi góðu stuði milli atriða og peppuðu salinn sem var þétt setinn.
Krakkarnir kusu lagið Hjörtu með Daniil sem Fiðringslagið 2025 og hann mætti á svæðið og gladdi gesti og keppendur í dómarahléinu. Í dómnefnd sátu Bergur Þór Ingólfsson leikhússtjóri, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir dansari og kennari á sviðslistabraut MA og París Anna Bergmann fulltrúi ungmennaráðs Akureyrar. Sérlegur dómari fyrir íslenskuverðlaun var Eyrún Huld Haraldsdóttir íslenskukennari í MA.
María Pálsdóttir og Hera Jónsdóttir verkefnastýrur vilja þakka öllum þátttökuskólum, leiðbeinendum, starfsfólki Menningarfélags Akureyrar, kynnum, dómurum, RÚV, Castor miðlun og SSNE fyrir að gera þessa veislu að veruleika! Áfram ungmenna menning!
Bráðlega er hægt að sjá öll atriðin á vef ungrúv