Fara í efni

Fjörug og fjölbreytt helgi að baki

Mikið var um að vera hjá Menningarfélagi Akureyrar um helgina en hátt í 2000 manns litu við á viðburði tengdum MAk.

Tvær sýningar af söngleiknum Kabarett fóru fram í Samkomuhúsinu en nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér miða í nóvember þar sem miðarnir renna út.

Að sama skapi lögðu fjölmargir leið sína í Menningarhúsið Hof. Hópur af ungum hljóðfæraleikurum kom saman á strengjamóti Tónlistarskóla Akureyrar en mótinu lauk með frábærum tónleikum í Hamraborg á sunnudaginn.

Laugardagskvöldið einkenndist af hræðilegum verum af þessum heimi og öðrum þegar þau Magni, Birgitta Haukdal, Stebbi Jak, Greta Salóme, Dagur Sigurðsson og Ólafur Egilsson ásamt karlakór, bakröddum, dönsurum og leikurum mættu á svið Hamraborgar og héldu hryllilegustu tónleikasýningu sögunnar; Halloween Horror Show fyrir fullu húsi.

Sunnudagurinn hófst svo í rólegri kantinum þegar tæplega 20 kríli, ásamt foreldrum, mættu á Krílasöngva með Sigrúnu Mögnu á þessum þriðja barnamorgni vetrarins. Hópurinn hafði það notalegt saman, sungu og fóru í skemmtilega leiki. Seinnipart sunnudagsins fluttu svo Dou Zweisam, Katrín Szamatulski og Þóra Kristín Gunnarsdóttir verk fyrir flautu og píanó á velheppnuðum tónleikum Þegar orða er vant í Hofi.

Til baka