Fjörmikil helgi framundan

Mynd: Auðunn Níelsson
Mynd: Auðunn Níelsson

Að vanda verður nóg um að vera í Hofi og Samkomuhúsinu um helgina. Sýningar á nýja söngleiknum Gallsteinar afa Gissa halda áfram. Viðtökurnar hafa verið frábærar og miðar renna út á þessa litríku og skemmtilegu sýningu.

Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að í dag, föstudag, er 30 ára afmæli bjórsins. Að því tilefni verður skemmtileg stemning á veitingastaðnum 1862 í Hofi þegar tónlistarmennirnir Phillip Doyle, Stefán Ingólfsson, Kristján Edelstein og Rodrigo Lopez mæta og spila latin jazz eins og þeim einum er lagið.

Í kvöld mun nýja áhugamannaleikfélagið, Draumaleikhúsið, frumsýna gamanleikinn Fullkomið brúðkaup í Hofi. Leikarar eru Bernharð Arnarson, Freysteinn Sverrisson, Inga María Ellertsdóttir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Símon Birgir Stefánsson, Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir og Sjöfn Snorradóttir en leikstjóri er Pétur Guðjónsson.

Á sunnudaginn verður svo spennandi Barnamorgunn með Gissalegu-ívafi í Samkomuhúsinu. Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, sem einnig samdi bækurnar um Fíusól og Móa hrekkjusvín, les brot úr bók sinni Gallsteinar afa Gissa, segir frá hugmyndunum á bak við söguna, rannsóknum sínum á fariðiskipana-kerfinu og leiðangrinum á Landspítalann til að kynna sér gallsteinauppgröft. Einnig verður sýnt atriði úr söngleiknum Gallsteinar afa Gissa. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Ekkert þátttökugjald er á Barnamorgnum. Norðurorka styrkir Barnamorgna Menningarfélags Akureyrar. 

Síðast en ekki síst ber að minnast á myndlistarsýningu Þrándar Þórarinssonar í Hofi sem mun standa til 7. apríl.