Fjör í vetrarfríi

Mynd: Auðunn Níelsson
Mynd: Auðunn Níelsson

Í vetrarfríinu sem nú ríkir hjá grunnskólum Akureyrar er margt spennandi í boði hjá Menningarfélagi Akureyrar. Tvær sýningar af nýja fjölskyldusöngleiknum Gallsteinar afa Gissa verða á sunnudaginn í Samkomuhúsinu. Miðasala gengur vel og því um að gera að tryggja sér miða sem allra fyrst til að missa ekki af fjörinu en sýningin hefur fengið frábæra dóma.

Á laugardaginn frumsýnir Leikfélag Menntaskólans á Akureyri söngleikinn Útfjör. Um 70. sýningu leikfélagsins er um að ræða en þessi nýstárlegi söngleikur verður nú settur upp í Samkomuhúsinu. Leikstjóri er Anna Gunndís Guðmundsdóttir en þýðing í höndum Einars Aðalsteinssonar.

Nýja leikhúsið, Draumaleikhúsið, heldur áfram sýningum á gamanleiknum Fullkomið brúðkaup en sýningar fara fram í Hofi. Á föstudaginn verður svo föstudagsdjazzinn  á 1862 þar sem þeir Pálmi Gunnarsson, Philip Doyle og Kristján Edelestein spila fyrir gesti eins og þeim einum er lagið.

Svo má ekki gleyma sýningu myndlistarmannsins Þrándar Þórarinssonar í Hofi en þessi áhugaverða sýning stendur fram í apríl.