Aðlaðandi helgi framundan í Hofi og Samkomuhúsinu
Þessa aðra helgi í aðventunni munu ljúfir jólatónar, ódauðleg popptónlist, dans, grín, jólaglens og hin hugprúða Jóla Lóla með stóru draumana koma við sögu í Hofi og í Samkomuhúsinu.
Í Samkomuhúsinu munu Umskiptingar í samvinnu við Leikfélag Akureyrar frumsýna glænýja íslenska grínsýningu JÓLAGLÖGG föstudagskvöldið 5. desember kl 20 . Þetta er sketsasýning um skrítnar jólahefðir, yfirþyrmandi jólalög, gjafastress og fleira til. Hér er boðið til hláturveislu um spaugilegar hliðar jólanna í leikstjórn Jennýjar Láru Arnórsdóttur. Sýningar eru alla helgina.
Fjölskyldusýningin Jóla Lóla snýr aftur í Samkomuhúsið laugardaginn 6. desember kl 13 og 15. Jóla Lóla er uppátækjasöm jólasveinastelpa sem á sér þann draum heitastan að fara til byggða og gefa börnum í skóinn. Vinur hennar, sem heitir Vettlingur, er ekki jafn æstur í ævintýraferðir því hann langar helst að vera heima í jólabústaðnum að pakka inn gjöfum. Saman leggja þau þó af stað með Skyrgámi og lenda í svaðilförum. Þessi sýning er tilvalin fyrir alla fjölskylduna enda hjartastyrkjandi og falleg fyrir börn á öllum aldri. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson. Sýningar eru til 28. desember.
Bubbi sjálfur slær svo tóninn inní þessa aðra helgi í aðventunni af sinni alkunnu snilld á föstudagskvöldið í Hofi, þar sem hann býður uppá sín allra bestu lög. Þau Jónína Björt, Svavar Knútur og Una Torfa ásamt hljómsveit og kórum bjóða gestum sínum uppá á huggulegheit á tónleikum sínum Jólaljós og lopasokkar á laugardagskvöldið. Þetta verða huggulegheit með hugljúfum jólalögum og alkunnum jólaperlum.
Sunnudagurinn hefst með hátíðlegri danssýningu STEPS – Þegar Trölli stal jólunum - þar sem fram koma nemendur á öllum aldri. Dansspor, gleðitár á hvarmi og dúndrandi lófatak mun spila stórt hlutverk á þessum árlega viðburði STEPS.
Punktinn yfir i-ið í þessari fjölbreyttu og girnilegu helgi setja svo GDRN og Magnús Jóhann með flutningi sínum á nokkrum jólalegum lögum sunnudagskvöldið 7.desember kl 20 í Hömrum. Þau eru flestum landsmönnum kunnug enda komið víða að í tónlistarsköpun undanfarin ár.
Verk Guðrúnar Sigurðardóttur myndlistarkonu prýða nú veggi Hamragils og bjóða gesti hússins velkomna á aðventunni. Á sýningunni eru textílverk, olíumálverk og teikningar.
Vert að benda á að enn eru nokkrir miðar lausir á viðburði þessarar fyrstu helgi í aðventu – miðasalan er opin alla virka daga kl 13-16 og allan sólahringinn á mak.is