Eitthvað fyrir alla í upphafi aðventunnar í Hofi
Fyrsta helgin í aðventunni býður uppá jólalegt fjör, ljúfa tóna, dans og myndlist í Hofi.
Helgin hefst með Jólatónleikum Baggalúts á föstudagskvöldið, en þeir stíga nú í fyrsta sinn á svið í Hofi. Þeir lofa pakkafullu fjöri, óvæntum uppákomum og jólatónlist á tónleikunum sínum þremur.
Verk Guðrúnar Sigurðardóttur myndlistarkonu prýða brátt veggi Hamragils og taka vel á móti gestum hússins á aðventunni. Guðrún opnar sýningu sína Sólstöður laugardaginn 29. nóvember kl 14 í Hofi. Verkin á sýningunni tengjast að formi og litum, þannig að hekluð verk sem urðu til fyrst höfðu áhrif á tilurð síðari verka. Á sýningunni eru textílverk, olíumálverk og teikningar.
Sunnudagurinn hefst með hátíðlegri danssýningu DSA, Bréf til jóla, þar sem fram koma nemendur tveggja ára og eldri. Sýningin fylgir eftir barni sem á hverju ári skrifar jólasveinum bréf. Með hverju bréfi opnast töfrar og ævintýri þar sem jólaandanum er fagnað með tónlist, tilfinningum og dansi. Dansspor, gleðitár á hvarmi og dúndrandi lófatak mun spila stórt hlutverk á þessum árlega viðburði DSA í húsinu.
GDRN og Magnús Jóhann syngja inn aðventuna og setja punktinn yfir i-ið þessa fjölbreyttu og girnilegu helgi með flutningi sínum á nokkrum jólalegum lögum sunnudagskvöldið 30. Nóvember kl 20 í Hömrum. Þau eru flestum landsmönnum kunn enda komið víða að í tónlistarsköpun undanfarin ár. Þetta verða ljúfir tónleikar á fyrsta sunnudegi aðventunnar.
Enn eru nokkrir miðar lausir á viðburði þessarar fyrstu helgi aðventunnar– miðasalan í Hofi er opin alla virka daga kl 13-16 og allan sólahringinn á mak.is