Fara í efni

Einleikstónleikar í Hofi í kvöld

Píanóleikarinn Erna Vala mun halda einleikstónleika í Menningarhúsinu Hofi í kvöld, miðvikudaginn 23. nóvember. Tónleikarnir eru eru tileinkaðir minningum, góðum og slæmum, hlýjum og kærum og eru hluti af tónleikaferð Ernu Völu hringinn í kringum landið.

Hér sérðu dagskrána.

Erna Vala er meðal virkustu hljóðfæraleikara á landinu. Hún hefur einnig komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum auk þess að vinna til fjölda verðlauna fyrir píanóleik. Þar má nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands, Sauli Niinistö, fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA- píanókeppninnar á Íslandi og Unga einleikara. Erna Vala er stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Seiglu sem haldin er árlega í byrjun ágúst í Hörpu. Erna Vala stofnaði einnig menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. 

Erna Vala lauk meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki undir leiðsögn Hömsu Juris vorið 2019. Hún hóf doktorsnám sama ár við USC í Los Angeles sem Fulbright-styrkþegi undir handleiðslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu og diplómu í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté.

Tónleikarnir njóta styrkja frá Tónlistarsjóði Rannís, Launasjóði listamanna og eru haldnir af Íslenska Schumannfélaginu.

Tónleikarnir eru án hlés og um klukkustund að lengd.

KAUPA MIÐA HÉR.

Til baka