Fara í efni

Stjarna úr heimi alþjóðlegrar kvikmyndatónlistar í Hof

Francesco Donadello, náinn samstarfsmaður Hildar Guðnadóttur, er væntanlegur í Menningarhúsið Hof á Akureyri til að starfa með upptökuteymi SinfoniaNord.is verkefninu og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hljómsveitarstjórinn Bjarni Frímann mun stjórna hljómsveitinni að þessu sinni.

Francesco er allt í öllu í heimi kvikmyndatónlistar í dag. Hann mixaði tónlist Hildar við verðlaunasjónvarpsseríuna Chernobyl og hefur meðal annarra unnið með ítalska tónskáldinu Ennio Morricone, Jóhanni Jóhannssyni, Thom Yorke söngvara Radiohead, bandaríska tónskáldinu Dustin O‘Halloran og breska tónlistarmanninum David Sylvian. Donadello kom að tónlistinni í Hollywood kvikmyndinni Prisoners með þeim Hugh Jackman, Jake Gyllenhaal og Violu Davis í aðalhlutverkum sem og stórmyndinni Sicario sem skartar stórstjörnunum Emily Blunt, Benicio Del Toro og Josh Brolin.

Með komunni í Hof bætist Donadello í hóp fjölda þekktra einstaklinga úr heimi alþjóðlegrar kvikmyndatónlistar sem kjósa að starfa með SinfoniaNord en verkefnið hefur verið starfandi frá árinu 2015 og hefur vaxið fiskur um hrygg hvert ár.

 

 

Til baka