Fara í efni

Bragðgóð, beitt og kitlandi blanda

„Til að eiga sígilt efni fyrir komandi kynslóðir þarf eitthvað nýtt að fæðast og þess vegna er það metnaður okkar hjá Leikfélagi Akureyrar að bjóða uppá frumsköpun fyrir börnin með áherslu á gæði og erindi. Það er mikilvægt að börnin njóti nýsköpunar í listum líkt og aðrir enda eru þau framtíð okkar lands,“ segir Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar en nýi fjölskyldusöngleikurinn, Gallsteinar afa Gissa, verður frumsýndur í Samkomuhúsinu á laugardaginn, þann 23. febrúar.

Söngleikurinn er byggður á þekktri bók eftir margverðlauna barnabókahöfundinn Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, með tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson ásamt söngtextum Karls Ágústs Úlfssonar, og tekur við keflinu af söngleiknum Kabarett sem sló heldur betur í gegn og bætti öll aðsóknarmet Menningarfélags Akureyrar.

Marta, sem leikstýrði sjálf Kabarett, ber miklar væntingar til Gallsteina afa Gissa en það er Ágústa Skúladóttir sem leikstýrir að þessu sinni. „Við erum sannfærð um að leikverkið sé klassík í fæðingu enda blandan bragðgóð, beitt og kitlandi. Og eins og öll bestu barnaverk heims höfðar söngleikurinn jafnt til barna og fullorðinna og veltir upp mikilvægum spurningum fyrir okkur öll og þá ekki síst fullorðna fólkið. Mitt í hringiðu nútímans, þar sem við viljum standa okkur á öllum vígstöðvum með tilheyrandi stressi og álagi, þá höfum við kannski gleymt því því allra mikilvægasta í lífinu og það er að eiga raunverulega samveru hvert við annað og þá ekki síst við börnin okkar.“

Til baka