Fara í efni

Bókmenntahátíð á Akureyri í Menningarhúsinu Hofi

Bandaríski rithöfundurinn Lily King tekur þátt í hátíðinni.
Bandaríski rithöfundurinn Lily King tekur þátt í hátíðinni.

Bókmenntahátíð verður á Akureyri þriðjudaginn 23. apríl í Menningarhúsinu Hofi. Dagskrá hennar er unnin í afar góðu samstarfi Menningarfélags Akureyrar og Amtsbókasafnsins á Akureyri við Bókmenntahátíðina í Reykjavík. Bókmenntahátíðin hefst hér norðan heiða degi áður en Bókmenntahátíðin í Reykjavík er sett. Boðið verður uppá tvo viðburði þennan dag með þátttöku  hins bandaríska rithöfundar Lily King og Hallgríms Helgasonar rithöfundar og handhafa íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018.

HÖFUNDAMÓT – höfundar, sögupersónur, lesendur er fyrri viðburðurinn af tveimur þennan dag sem áhugasömum gestum og bókaunnendum er boðið uppá. Hann hefst kl. 11.30-13.00. Rithöfundarnir Lily King (Sæluvíma) og Hallgrímur Helgason (60 kg af sólskini) lesa uppúr verkum sínum. Þrír félagar úr akureyrska bókaklúbbnum Les-endur segja frá sinni upplifun á lestri bókanna og vangaveltum sem urðu til við lesturinn. Lesklúbbsfélagarnir fá því einstak tækifæri til að spyrja höfundana beint út í verkin. Áheyrendum út í sal gefst einnig kostur á að spyrja spurninga og taka þátt í umræðunum. Viðburðurinn fer fram á ensku og íslensku.

MAÐUR Á MANN er seinni viðburður hátíðarinnar og hefst kl. 17. Þar fara þau Hallgrímur Helgason rithöfundur og Rannveig Karlsdóttir þjóðfræðingur og framhaldskólakennari á trúnó.  Lily King rithöfundur fer á trúnó við Þorgerði Öglu Magnúsdóttur bókaútgefanda. Auk þess les ungskáldið Kristjana Anna Kristjana Helgadóttir verk eftir sig.  Ávarp flytur Þórgnýr Dýrfjörð Akureyrarstofustjóri en kynnir er Arnar Már Arngrímsson rithöfundur.

Báðir viðburðir verða í Hofi þriðjudaginn 23. apríl.

 

Örlítið um höfundana sem sækja okkur heim:

Lily King 

Bandaríska rithöfundinn Lily King þekkja margir sem höfund hinnar vinsælu og margverðlaunuðu Euphoria sem kom út hér síðasta vor undir nafninu Sæluvíma í þýðingu Ugga Jónssonar. King ólst upp í Massachusetts í Bandaríkjunum og er með B.A. gráðu í enskum bókmenntum og M.A. gráðu í skapandi skrifum frá Háskólanum í Syracuse. Hún hefur kennt bæði ensku og skapandi skrif við háskóla víða um heim.

Fyrsta skáldsaga King, The Pleasing hour, kom út árið 1999 og hlaut afar góðar viðtökur bæði hjá gagnrýnendum og lesendum. Sömu sögu má segja um næstu bækur hennar, The English Teacher (2005) og Father of the Rain (2010). Sæluvíma sem kom svo út árið 2014, sló algjörlega í gegn, rataði inn á marga lista yfir bestu bækur ársins og fékk fjöldamörg verðlaun.

 

Hallgrímur Helgason

Hallgrímur Helgason er fæddur  18. febrúar 1959. Hann lærði myndlist í Reykjavík og München og hefur frá árinu 1982 starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar hér heima, í Boston, New York, París og Malmö og verk hans hafa verið sýnd á yfir 30 samsýningum í ýmsum löndum. Hallgrímur er handhafi íslensku bókmenntaverðlaunanna ársins 2018.

Fyrsta skáldsaga Hallgríms, Hella, kom út árið 1990 og síðan hefur hann sent frá sér allmargar skáldsögur sem vakið hafa athygli og hlotið ýmsar viðurkenningar. Kunnustu bækur Hallgríms eru 101 Reykjavík, sem var kvikmynduð, Höfundur Íslands, sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001, og Rokland, sem einnig var kvikmynduð. Sú fyrstnefnda og síðastnefnda voru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og sömuleiðis skáldsagan Konan við 1000 gráður, sem út kom 2011. Sú bók var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hefur komið út í allmörgum löndum. Frá námsdvöl sinni í München segir hann í bókinni Sjóveikur í München, sem kom út 2015 og var tilnefnd til Íslensku bókmennntaverðlaunanna.

Bók Hallgríms, 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, hefur komið út á ýmsum tungumálum, naut mikillar velgengni á meginlandi Evrópu og var sett þar á svið. Þá hefur Hallgrímur sent frá sér úrval kvæða, Ljóðmæli 1978-1998, og skrifað nokkur verk fyrir leikhús.

 

 

Til baka