Fara í efni

Bjarni Frímann stjórnar SOS og þeirri fimmtu

Í tilefni 250 ára fæðingarafmælis Ludwig Van Beethovens flytur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands eitt af hans vinsælustu verkum, fimmtu sinfóníuna, á tónleikum í Menningarhúsinu Hofi 13. febrúar. Stjórnandi SN verður Bjarni Frímann.

Að sama skapi voru tímamót hjá þeim félögunum, Jóni Hlöðver Áskelssyni tónskáldi sem varð 75 ára, og Arngrími Jóhannssyni flugkappa sem varð áttræður á stórafmælisári Beethoven 2020. Til hátíðabrigða ætlar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að frumflytja SOS sinfóníu Jóns fyrir sinfóníuhljómsveit og morssendi. Einleikari á morssendi verður Arngrímur sjálfur. Verkinu er ætlað að varðveita tungumálið mors en þeim fer fækkandi á jörðinni sem skilja og tala þetta mál.

„Haustið 2017 varð ég fyrir sterkum áhrifum á Norðurslóðasetrinu á Akureyri, er Arngrímur Jóhannsson, loftskeytamaður, flugmaður, forstöðumaður og eigandi safnsins, „morsaði“ á gamalt morstæki úr síðutogaranum Harðbak frá 1959, fyrir mig setninguna „ljósið skín í myrkrinu“ og SOS. Morstónfallið vakti upp hugmyndir og hugrenningatengsl. Morshljóð sem oft skildu að ljós og myrkur, líf og dauða, tengjast bæði sorg og gleði,” segir Jón Hlöðver og bætir við:

„Svo er mér sýndur sérstakur heiður með því að mitt stóra hljómsveitarverk skuli frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn hins frábæra unga hljómsveitastjóra Bjarna Frímann.“

Tónleikarnir hefjast kl. 16. Miðasala hefst kl. 13 í dag á mak.is.

Til baka