Fara í efni

Barnamenning í Hofi

Barnamenningarhátíð á Akureyri verður haldin í annað sinn dagana 9. -14. apríl og mun Menningarfélag Akureyrar taka öflugan þátt með því að fylla Hof af skemmtilegum og fjölbreyttum viðburðum í samstarfi við aðrar menningarstofnanir, einstaklinga og Akureyrarbæ.

 

Setning hátíðarinnar fer fram í Hamragili en þá ætlar Herra Hnetusmjör að flytja nokkur sjóðheit lög, grunnsveit Tónlistarskólans á Akureyri spilar og þrír ungir nemendur úr Dansstúdíó Alice sýna „Someone in the crowd“ sem keppir á heimsmeistaramótinu í dansi í Portúgal í sumar. Einnig verða flutt atriði úr fjölskyldusöngleiknum Gallsteinar afa Gissa í uppfærslu Leikfélags Akureyrar og sýningin „Þetta vilja börnin sjá“ – myndskreytingar á barnabókum verður opnuð. Kynnir setningarinnar verður Eik Haraldsdóttir.

 

Þriðjudagsmorguninn 9. apríl er Söngvaflóð Tónlistarskólans á Akureyri þar sem leikskólabörn bjóða bæjarbúum upp á tónleika ásamt nemendum skólans kl. 17 sama dag er svo fyrirlesturinn Hvernig þjálfum við viðhorf, lykillinn að sönnum árangri en þar mun handboltahetjan, Ólafur Stefánsson, og unglingalandsliðsmaðurinn, Sigþór Gunnar Jónsson, spjalla við ungt íþróttafólk, foreldra og forráðamenn.  Pop Up -tónleikar Tónlistarskólans á Akureyri í Nausti, Sjónrænt síðdegi þar sem börn og unglingar fá tækifæri til að spreyta sig á listsköpun undir áhrifum myndlistarsýningarinnar „Þetta vilja börnin sjá“ en á sýningunni eru myndir úr nýjum barnabókum eftir 19 myndhöfunda, Hæfileikakeppni Akureyrar, STULLI – stuttmyndahátíð, þar sem veitt verða verðlaun fyrir bestu stuttmyndina í tveimur aldursflokkum sem og verðlaun fyrir björtustu vonina og bestu útfærslu á þema hátíðarinnar, eru einnig hluti af Barnamenningarhátíðinni auk þess sem sýning elsta hóps Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar, Hryllingssögn, verður í Samkomuhúsinu. Enginn aðgangseyrir er á viðburðina og ungir sem aldnir hvattir til að mæta.

 

„Það er virkilega gaman að fá að vera þátttakandi í þessum magnaða viðburði sem Barnamenningarhátiðin okkar er. Forvitnilegir og fjölbreyttir viðburðir verða á dagskránni hér í Hofi, en einnig um allan bæ, sem án efa munu auðga barnamenninguna í bænum, en einnig gera hana enn sýnilegri. Hátíðin er nefnilega tilvalinn vettvangur til þess að draga fram það sem fyrir er, en einnig vettvangur til nýsköpunar þar sem áherslan er á menningu  og sköpun barna í víðasta skilningi, menningarviðburði fyrir börn og með börnum,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastýra Menningarfélags Akureyrar.

 

Í tengslum við Barnamenningarhátíðina verða tvær leiksýningar um helgina. Á laugardaginn er það Fyrsta skiptið, sýning Ungmennaleikhópsins Gaflaraleikhússins. Sunnudaginn kl. 13 er svo hinn glænýi íslenski fjölskyldusöngleikur Gallsteinar afa Gissa í uppfærslu Leikfélags Akureyrar sýndur í Samkomuhúsinu.

 

Dagskrá Barnamenningarhátíðar á Akureyri er hægt að nálgast í heild sinni á vefnum barnamenning.is

Til baka