Aukasýningar komnar í sölu og fyrsta umsögn um Elskan, er ég heima? komin í hús.
Eftir mjög vel heppnaða frumsýningarhelgi á leikritinu Elskan, er ég heima? hefur nú verið bætt við 5 aukasýningum til að sinna eftirspurn. Nánast hver einasta sýning sem auglýst hefur verið til þessa er að verða uppseld og því um að gera að tryggja sér sæti til að berja þessa skemmtilegu sýningu augum.
"Við mæðgur settumst inn í salinn meðan aðrir gestir voru enn frammi í anddyrinu að sýna sig og sjá aðra og nutum þess að fá góða stund einar með stórkostlegu leiksviðinu. Þar gat að líta fullkomna dúkkuíbúð frá sjötta áratugnum: eldhús á einum palli, stofa á öðrum, húsbóndaherbergi (einn hægindastóll og útvarpstæki með plötuspilara) á þeim þriðja og loforð um herbergi inn af þeim palli eða uppi á efri hæð. Hvert smáatriði var fullkomið, húsgögn, málverk og útsaumur á veggjum og á púðum í sófa – þetta var alveg truflað! " Svona hefst umsögn Silju Aðalsteinsdóttir hjá Mannlífi um leikritið og um þau hjón sem Óli Ásgeirs og Hólmfríður Hafliðadóttir túlka í leikritinu segir hún: "Þau eru sammála um að þau séu óstjórnlega hamingjusöm einmitt vegna þess að hún er heimavinnandi og getur notað alla orku sína í að láta heimilið líta vel út og láta honum líða vel. Þessi glansmynd endist nokkurn veginn fram að hléi en svo kemur í ljós að hún er glansmynd – eins og var líka í kvæði Davíðs Stefánssonar um litlu Gunnu og litla Jón. Bæði er ástandið á fjárreiðum heimilisins ekki eins gott og Gunna heldur fram og ekki eru hvatir hennar heldur eins tærar og hún vill vera láta. Það glittir í flókna og áhugaverða persónu undir gelda yfirborðinu úr blaða- og tímaritsauglýsingum frá 1955, persónu með sára fortíð sem ekki má tala um." Silja er ánægð með verkið, boðskapinn, uppsetninguna sem og leikaravalið, og hún heldur áfram: "Þá flóknu og spennandi persónu túlkaði Hólmfríður listilega vel. Hún hefur svipbrigðaríkt andlit sem getur tjáð mótsagnakenndar tilfinningar þannig að furðu auðvelt er að lesa þær og greina í sundur. Hún er líka lipurtá, full yndisþokka, sem passaði hlutverkinu fullkomlega, en gat svo á augabragði orðið hörð og eitruð. Ólafur var prýðilegur mótpartur, Nonni hans var dálítill þurs móti hennar álfamey, jarðbundinn, skynsamur, dálítið lengi að fatta en fylginn sér þegar hann hefur fattað. Aukahlutverkin eru líka vel skipuð. Gamla rauðsokkan Tóta var í hæfum höndum Eddu Björgvinsdóttur sem var vissulega meinfyndin en stafaði líka frá sér innri krafti sem smitaðist um allan salinn. Vigdís Halla var meðvirka vinkonan lifandi komin en tækifærissinninn Markús var verulega hættulegur í höndum Hjalta Rúnars. Við kynnumst líka yfirmanni Nonna á fasteignasölunni, Blævi (Urður Bergsdóttir) sem er dásamleg andstæða Gunnu í einu og öllu eins og Urður sýndi vel.