Fara í efni

Átta verkefni hljóta VERÐANDI styrk

Veittir hafa verið styrkir úr listsjóðnum VERÐANDI fyrir árið 2024-2025. Það voru 22 umsóknir sem bárust sjóðnum og átta verkefni sem hlutu brautargengi.

Styrkþegarnir bjóða gestum sínum uppá girnilegt konfekt fyrir öll skynfærin og molarnir fylltir fjölbreyttum fyllingum. Hér má nefna útgáfutónleika frumsamins efnis þar sem ýmsar tónlistarstefnur koma við sögu s.s. jaðarrokk, pönk og raftónlist. tónleikasýning fyrir alla fjölskylduna með lögum úr þekktum teiknimyndunum, óperuóður til Úkraínu, blæbrigði harmonikkutónlistar, þriggja hljómsveitakvöld þar sem þrjár kynslóðir mætast, stórtónleikar áhugasinfóníuhljómsveitar og norðlenskar klassískar söngperlur. 

Megintilgangur Verðandi listsjóðs er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem húsakynni Menningarfélags Akureyrar búa yfir, auk þess að stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði. Akureyrarbær, Menningarfélagið Hof og Menningarfélag Akureyrar standa á bak við Verðandi listsjóð.

„Það var afar ánægjulegt að fá svo margar fínar umsóknir, sjá metnað listafólksins og vilja til að nýta sér aðstöðuna í Menningarhúsinu Hofi fyrir þeirra flottu og krefjandi viðburði. Við starfsfólk Menningarfélagsins hlökkum til að taka á móti þeim í hús en fyrsti viðburðurinn verður núna 23. ágúst næstkomandi,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar og verkefnastjóri VERÐANDI listsjóðs.

 

Styrkþegarnir átta munu standa fyrir fjölbreyttum viðburðum í Menningarhúsinu Hofi á tímabilinu 23. ágúst 2024 til júníloka 2025. Allir viðburðirnir verða sýnilegir á mak.is, þar má finna nánari upplýsingar og hægt að tryggja sér miða á viðburðina framundan.

Anastasisa Andrukhiv. From Ukraine with Love

Arctic Opera : Tónar norðursins

Agnar Forberg: Kærleikur og kvíði – útgáfutónleikar

Egill Logi Jónasson: Klang og bang

Hrund Hlöðversdóttir: Harmonikan heiðruð

Jónína Björt Gunnarsdóttir: Teiknimyndalögin okkar

Davíð Máni Jóhanesson: Miomantis: TJÓN, útgáfutónleikar

Hljómsveit Akureyrar: Magnaði Mendelssohn

Til baka