Fara í efni

Annasöm helgi framundan - Ekki þarf í hraðpróf

Framundan er annasöm helgi hjá Menningarfélagi Akureyrar. Á fimmtudagskvöldið stíga Fullorðin á svið Hamraborgar. Sýningin hefur slegið rækilega í gegn en nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér miða. Eftir sýninguna á fimmtudaginn eru aðeins tvær sýningar eftir í Hofi áður en þessi sprenghlægilega sýning fer suður í Þjóðleikhúsið.

Á föstudagskvöldinu er komið að Ara Eldjárn og Jóni Ólafssyni sem ætla í gegnum stórbrotinn feril þess fyrrnefnda í tali og tónum. Uppistand, sögur, grín, glens og músík og ljóst að enginn fer samur heim!

Á laugardeginum klukkan 15 er komið að A! Gjörningahátíð en þá kemur listamaðurinn Snorri Ásmundsson í Hof. Snorri er þekktur fyrir tilraunir sínar til að hafa áhrif á samfélagið með ýmiskonar uppákomum og hefur oft verið kallaður óþekka barnið í íslensku listalífi.

Um kvöldið verður svo veisla í Hofi þegar stórstjarnan Friðrik Ómar fagnar fertugsafmælinu sínu á sviði Hamraborgar ásamt hópi vina og samstarfsmanna. Koluppselt er á viðburðinn og ljóst að þarna verður fjörið um helgina.

Svo er það náttúrulega fjölskyldusöngleikurinn Benedikt búálfur í Samkomuhúsinu en nú fer að líða að leiðarlokum. Sýningum lýkur í október.

Athygli er beint að því að Hamraborg er eitt sóttvarnarhólf sem tekur 500 manns í sæti. Ekki þarf því að fara í hraðpróf fyrir viðburðina en virða þarf grímuskyldu. Einnig eru gestir hvattir til að viðhafa einstaklingsbundnar sóttvarnir og gæta að fjarlægðarmörkum.

 

Til baka