Alþjóðlegt samstarf lýðræðishátíða

Fulltrúar lýðræðishátíðanna níu hittust í Osló í mars. Mynd: @nyebilder.no
Fulltrúar lýðræðishátíðanna níu hittust í Osló í mars. Mynd: @nyebilder.no

LÝSA – rokkhátíð samtalsins hefur tekið höndum saman við átta aðrar lýðræðishátíðir af hinum Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og Evrópu og myndað samtökin Democracy Festivals Association.

Nýju samtökin, DFA, hafa það að leiðarljósi að styrkja núverandi lýðræðishátíðir og aðstoða önnur lönd til að koma upp sínum eigin hátíðum. „Markmiðið er að blása nýju lífi í lýðræðið með því að styrkja tengslin milli stjórnmála og almennings og um leið skapa vettvang fyrir samtalið,“ segir Zakia Elvang, nýkjörinn stjórnarformaður DFA.

Fyrsta lýðræðishátíðin var haldin í Almedalen í Svíþjóð árið 1968. Í fyrra, 2018, tóku yfir 600.000 manns þátt í níu hátíðum víðsvegar um Evrópu. Hátíðirnar sem standa að nýju samtökunujm eru LAMPA í Lettlandi, Almendalsveckan í Svíþjóð, Folkemødet í Danmörku, Arvamusfestival í Eistlandi, SuomiAreena í Finnlandi, Diskusiju Festivalis „Butent“ í Litháen, LÝSA á Akureyri og Jubel í Belgíu.

Markmið LÝSU er að efla samtalið um samfélagið og hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka, atvinnulífs og stjórnmálafólks til að auka skilning og traust í samfélaginu. LÝSA – rokkhátíð samtalsins fer fram 6. og 7. september í Hofi á Akureyri.