Fara í efni

Akureyrarvaka hjá MAk

 Opnun myndlistarsýningar, stuttmyndasýning, Vísindasetur, leiksýning og veislukortasala

Á Akureyrarvöku föstudaginn 25. ágúst kl. 17 opnar málverkasýning Írisar Auðar Jónsdóttur 22 konur í Leyningi. Málverkaröðin samanstendur af 22 portrait myndum af konum, en þær endurspegla kvenpersónur sem koma úr hugarheimi listamannsins. Íris fær sinn innblástur úr ólíkri tónlist sem mótar persónurnar sem verða til. Þetta er fyrsta einkasýning Írisar. Allar myndirnar eru unnar með akrýl á pappír.

Í Hömrum kl. 18 þennan sama dag býður KvikYndisListaSumar, Menningarfélag Akureyrar, Filmumenn og 1862 Nordic Bistro gestum og gangandi upp á sýningu fjögurra stuttmynda. Filmumenn unnu þær allar á árunum 1992-1995 þá nemendur í Verkmenntaskólanum. Tilefnið er 25 ára frumsýningarafmæli stuttmyndarinnar Spurning um svar sem Filmumenn gerðu 1992 og sýnd var í Nýja bíói. Myndirnar Skotinn í skónum, Negli þig næst og GAS verða einnig sýndar af þessu tilefni og meðlimir Filmumanna verða á staðnum.

 

Á laugardeginum milli kl. 13 og 16 er hið geysivinsæla VÍSINDASETUR.

Þar fá börn og fullorðnir tækifæri til að leita svara við spurningum eins og hvernig er heimur hitaútgeislunar? Er hægt að greina hitastig út frá innrauða litrófinu? Hvernig notum við rafmagn til að kveikja á ljósaperu?, Var líf á Mars? Er í alvöru hægt að rækta kartöflur þar?

Iðandi slímgerð verður í boði fyrir þá sem þora og slímsnillingurinn Ísabella Slimes verður á staðnum. Fab Lab mætir með sérkennilegan prentara sem þú átt örugglega ekki heima hjá þér og þú getur hlustað á neðansjávarhátalara.

Í Hamraborg kl. 13 og 15 verða sprengigaldrar og froðutöfrar með hinum óða Sean Scully og kl. 14 mæta drengirnir í SýruDraumum og sýna áhugasömum hvernig þeir teygja og tvista takta.

Þetta og svo margt fleira úr heimi vísindanna sem hægt verður að sjá, prófa og fræðast um á Vísindasetri í Hofi.

Í Vísindasetrinu taka þátt verkfræðistofan EFLA, Raftákn, Háskólinn á Akureyri, Menningarfélag Akureyrar, Norðurorka, Eimur, Vistorka, Fab lab Akureyri, Ísabella Slimes, Nýsköpunarmiðstöð, Melrakkasetur Íslands, Lucid Dreams og Frumkvöðlasetur.  

VERKFRÆÐISTOFAN EFLA, RAFTÁKN OG HÁSKÓLINN Á AKUREYRI ÁSAMT MENNINGARFÉLAGI AKUREYRAR ERU AÐALSTYRKTARAÐILAR VÍSINDASETURSINS.

Í Samkomuhúsinu kl. 15 verður flutt hin stórskemmtilega gamanópera Piparjúnkan og þjófurinn  í einum þætti eftir tónskáldið  Gian Carlo Menotti. Verkið fjallar um slúður og leyndarmál í litlum hljóðlátum bæ. Hin miðaldra piparjúnka, Miss Todd, eyðir flestum dögum sínum í það að prjóna og slúðra með annarri piparjúnku, Miss Pinkerton. Einn daginn snýst heimur þeirra á hvolf þegar að flakkari knýr dyra hjá Miss Todd. Hún og þerna hennar, Laetitia, verða báðar bálskotnar í myndarlega förumanninum og vilja endilega veita honum húsaskjól, jafnvel þó þær komist svo að því að hann gæti mögulega verið strokufangi. En þær grunar aldrei hversu langt þær væru til í að ganga fyrir smá tilbreytingu í smábæjarlífið. 

Sýningin er sungin á ensku en textavél verður á sviðinu með íslenskum texta. Sýningin er um klukkustund að lengd.

Piparjúnkan og þjófurinn er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra og Akureyrarstofu.

 

Veislukortasala Menningarfélagsins verður í fullum gangi og miðasalan opin á föstudag kl. 12-18 og kl 13-16 á laugardag.

Allir viðburðir Akureyrarvöku í Hofi og Samkomuhúsinu eru án endurgjalds og allir hjartanlega velkomnir!

Hlökkum til að sjá ykkur. 

Til baka