Akureyrarvaka, afmæli, afmæli og afmæli
Akureyrarvaka, hin árlega bæjarhátíð og menningaveisla fer fram núna um helgina og verður stór hluti hennar haldin í Hofi.
Akureyrarvaka er haldin síðustu helgina í ágúst, eins nálægt afmælisdegi Akureyrarbæjar, sem fékk kaupstaðarréttindi sín þann 29. ágúst 1862. Í ár eru einnig 15 ár frá því að Menningarhúsið Hof var formlega opnað og hefur það staðið undir nafni sem hof fjölbreyttrar menningar, lista og viðburða síðan þá.
Auk þess eru 10 ár liðin frá því að starfsemi Menningarfélags Akureyrar hófst með sameiningu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Leikfélags Akureyrar og Menningarhússins Hofs.
Það eru því fjölmargar ástæður til fagnaðar núna um helgina og býður Menningarfélag Akureyrar í samvinnu við Akureyrarbæ upp á fjölmarga viðburði sem hægt er að njóta.
Dagskráin hefst með tónleikum kl. 22 á föstudagskvöldinu þegar seiðandi brasilískir tónar hljóma um Naust í Hofi. Á þessum viðburði verður boðið upp á hljóðrænt ferðlag til Brasilíu þar sem þeir Ívar Mendez, Sigfús Jónsson, Michael Weaver og Rodrigo Lopez segja í tali og tónum frá heimsókn sinni á Camp da Música Brasileira hátíðina
Fjölskyldudagskrá og afmælisfögnuður Laugardaginn 30. ágúst kl 13:45 - 17:00
Á laugardeginum tekur hver viðburðurinn við af öðrum og tilvalið að taka fjölskylduna með og upplifa skemmtilega og fjölbreytta viðburði fyrir allan aldurshóp.
Elín Hall, Kött Grá Pjé, Drengurinn fengurinn , listasmiðja, víkingagjörningur, brasskvintett, Davíð Máni er hluti af því sem hægt er að upplifa og svo verða 2 stórir viðburðir í Hamraborg.
Fuglakabarettinn kl 14 og Opnum konfektkassann kl 16.
Fuglakabarettinn - er fjörugur og frumlegur kabarett um íslenska fugla. Þar stíga íslenskir fuglar á svið í leik og söng, hver með sína sérstöðu og hljóm. Verkið hefur verið flutt víða um land við miklar vinsældir og ávallt hrifið áhorfendur jafnt unga sem aldna.
Opnum konfektkassann - Gleðin tekur öll völd þegar afmælisárið verður kynnt í tali og tónum með lifandi og fjölbreyttum hætti. Konfektmolarnir eru ekki af verri endanum enda stútfullir af tónlist, leiklist og tali. Mjúkir og harðir molar sem vert er að kynna sér. Við sögu koma meðal annars Elskan, er ég heima?, Rokkland, Jóla - Lóla, Jólaglögg, Kafteinn frábær, Birtingur, Upptakturinn, Fiðringur og Jón Nordal ásamt mörgu öðru. Þetta er dagskrá sem ungir sem aldnir ættu ekki að láta fram hjá sér fara.
Ekki láta þennan konfektkassa fram hjá þér fara - komdu, njóttu og upplifðu með okkur og kannski færðu óvæntan fylltan gullmola að gjöf en GULLkort Menningarfélagins, mun gleðja einn heppinn gest í salnum!
Tónlistaratriði, listasmiðja fyrir börn, myndaveggur með leikmunum, smábollakökur, blöðrur og allt sem gerir gott afmæli betra.
Nánari upplýsingar um hvern viðburð má finna á viðburðarsíðu www.mak.is
Dagskrá Akureyrarvöku í Hofi er styrkt af Akureyrarbæ og Menningarfélagi Akureyrar.