Fara í efni

Æfingar hafnar á leikverkinu Skjaldmeyjar hafsins

Æfingar á hinu nýja heimildaverki Skjaldmeyjar hafsins úr smiðju leikhópsins Artik hófust í síðustu viku. Verkið varpar ljósi á líf eiginkvenna sjómanna, hugsanir þeirra og tilfinningar í fjölbreyttum og oft krefjandi hversdagsleika. Við kynnumst þremur konum og hvernig þær takast á við óvissuna, óttann og sorgina þegar háska ber að á hafi úti og þær eru í landi.

Verkið er unnið eftir aðferð sem á ensku kallast Verbatim og er best þýtt sem beinheimildaverk. Viðtöl eru þá tekin við fólk sem tengist efninu og síðan eru viðtölin klippt saman til að mynda eina heild, án þess að orðalagi sé breytt, að undanskildum sérnöfnum sem er breytt til að tryggja friðhelgi.

Leikstjórinn, Jenný Lára Arnórsdóttir, hefur áður unnið eftir þessari vinnuaðferð, en hún skrifaði Verbatim-verkið Elska - ástarsögur Norðlendinga árið 2016, sem var sýnt í Samkomuhúsinu við góðar undirtektir. Þar að auki vann hún með aðferðina meðan hún stundaði nám í London við Kogan Academy of Dramatic Arts þar sem hún nam leiklist og leikstjórn í fjögur ár.

Viðtölin sem Skjaldmeyjar hafsins byggir á, eru við eiginkonur sjómanna á norður- og austurlandi. Út frá þeim hefur Jenný myndað grind sem leikhópurinn styðst við á fyrstu vikum æfingatímabilsins og vinnur saman að hinni endanlegu mynd verksins. Samhliða hafa leikmynda- og búningahönnuður ásamt ljósahönnuði hafið vinnu sem snýr að útliti sýningarinnar og tónlistarstjóri vinnur að útsetningum á stefjum úr sjómannalagasarpi þjóðarinnar sem verður undirstaða tónlistarinnar í sýningunni.

Til verkefnisins hefur leikhópurinn Artik fengið viðurkennda styrki sem gerir þeim kleift að leggja alla sína krafta í hina listrænu vinnu. Þau hlutu styrki frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra sem veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, auk 12 mánaða listamannalauna úr launasjóði sviðslistafólks. Er þetta í fyrsta sinn frá stofnun Menningarfélags Akureyrar að leikhópur á listamannalaunum setur upp sýningu í samstarfi við Menningarfélagið.

Athygli vekur einnig að aldrei hafa fleiri leikhópar á landsbyggðinni hlotið styrk úr launasjóði sviðslistafólks, eða alls fimm leikhópar. Tveir þeirra eru frá Akureyri, Artik og Umskiptingar.

Skjaldmeyjar hafsins verður frumsýnt 28. mars í Samkomuhúsinu

 

Til baka