Fara í efni

Æfingar á sviðslistaverkinu TÆRING hefjast á HÆLINU

Æfingar á sviðslistaverkinu TÆRING eru að hefjast á HÆLINU setri um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Verkið er innblásið af sögu berklasjúklinga sem þar dvöldu á síðustu öld og er frumsýning fyrirhuguð 19. september. Verkið er samsköpun allra þátttakenda og er sérstaklega unnið inn í sýningarrýmið þar sem leiknum senum er blandað við vídeóverk og hljóðverk og einnig fara einhver atriði fram utandyra sem áhorfendur sjá út um glugga.

Listrænir sjórnendur sýningarinnar eru Vala Ómarsdóttir leikstjóri, Vilhjálmur B. Bragason leikskáld, Auður Ösp Guðmundsdóttir leikmynda- og búningahönnuður, María Kjartansdóttir vídeólistakona og ljósmyndari og Biggi Hilmars tónlistarmaður. Á meðal leikara eru Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn og Kolbrún Lilja Guðnadóttir. Verkefnið hlaut styrk í aukaúthlutun Leiklistarráðs í vor og er samstarfsverkefni Hælisins seturs um sögu berklanna og Leikfélags Akureyrar.

„Við erum öll orðin mjög eftirvæntingarfull,“ segir María Pálsdóttir Hælisstýra og forsprakki verkefnisins.

„Við hlökkum til að kafa enn dýpra ofan í sögurnar og minningarbrotin sem Hælið hefur fengið sent undanfarin ár. Þetta eru sögur um missi og örvæntingu, fjarlægð og söknuð en líka um ærðuleysi og botnlausan lífsþorsta og rómantík. Sumar sögurnar enduðu líka vel þó berklarnir tækju allt of stóran toll af þjóðinni. En þá eins og nú stóð framlínan í heilbrigðismálum sig vel og þjóðin sigraðist á bakteríunni. Það er mjög sérstakt að vera að vinna að þessari sýningu einmitt nú á tímum kórónuveirunnar, svo margt sem kallast á við berklatímann. Við vonum bara heitt og innilega að leiklistarlífið geti farið aftur í gang í haust,“ segir María.

Einungis 10 áhorfendur komast á hverja sýningu. Reglum um sóttvarnir verður fylgt.  

Til baka