Klassík á eyrinni er einstök kammertónlistarhátíð sem fer fram í fyrsta sinn sumarið 2024 í hrífandi fegurð Eyjafjarðarins. Hátíðin fer fram yfir helgina 17. -18. ágúst og býður íbúum Norðurlandsins að hlýða á fremstu ungu tónlistarmenn landsins flytja meistaraverk kammerbókmenntanna í kirkjum og tónleikasölum Akureyrar.
Lokatónleikar hátíðarinnar fara fram í Hömrum í Hofi og endar hátíðin á tveimur sigursælustu og ástsælustu kammertónverkum sem skrifuð hafa verið. Antonín Dvorák tók fræga ferð til Ameríku undir lok 19. aldarinnar og komst þar í kynni við tónlist vesturálfunnar. Hann var gífurlega impóneraður af amerískri alþýðutónlist og í sínum fræga “ameríska” strengjakvartett, sem hann samdi í ferð sinni, fléttar hann þessa tónlist saman við alþýðutónlist heimalandsins Tékklands. Hinn hægi annar kafli er einstaklega minnisstæður og á að geyma eina fergurstu laglínu sem Dvorák nokkurn tímann samdi. Lokaverkið er svo ekki síður glæsilegt en píanókvintett Róberts Schumann er gjarnan talinn besti píanókvintett sögunnar. Hann er í jöfnu mæli kröftugur, dramatískur, innilegur og sigrihrósandi og spannar allt litróf tilfinninganna.
www.akureyrichambermusicfestival.is
Efnisskrá:
Antonín Dvorák: Strengjakvartett í F-dúr, Op. 96 “ameríski kvartettinn”
Robert Schumann: Píanókvintett í Es-dúr, Op. 44
Flytjendur:
Sólveig Steinþórsdóttir, fiðla
Rannveig Marta Sarc, fiðla
Anna Elísabet Sigurðardóttir, víóla
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, selló
Þóra Kristín Gunnarsdóttir, píanó