Fara í efni
Dags Tími
08 .ágú '19 20:00

Tónlistarfélag Akureyrar kynnir Klarínett og píanó, klassíska tónleikar í Hömrum í Hofi 8. ágúst 2019 kl. 20.00


Flytjendur: Nia Maderski, klarínett, og Þóra Kristín Gunnarsdóttir, píanó.


Fjölbreytnin er í fyrirrúmi á þessum klassísku tónleikum. Flakkað er um Evrópu og Asíu
á hundrað ára tímabili, frá lokum nítjándu aldar til seinni hluta þeirrar tuttugustu. Þar
má finna hina þekktu sónötu í Es-dúr eftir Brahms en einnig verk sem sjaldnar má heyra
á tónleikum, svo sem sónötu eftir Arnold Bax og tvö stykki eftir Clémence de Grandval,
sem var eitt mikilvægasta kventónskáld Frakka á síðari hluta nítjándu aldar.
Þjóðlagaútsetningar Þorkels Sigurbjörnssonar eru Íslendingum kunnar og Chih-Yuan
Kuo er þekkt tónskáld í Taívan, en kannski hefur tónlist hans aldrei verið leikin á Íslandi
áður. Í sónötu hans blandast saman austrænn hljómur, svo sem pentatónskali, og
vestrænar hefðir.


Efnisskrá
Clémence de Grandval: Deux pièces (1885)
1. Invocation
2. Air slave
Johannes Brahms: Sónata fyrir klarínett og píanó í Es-dúr op. 120 no. 2 (1894)
1. Allegro amabile
2. Allegro apassionato
3. Andante con moto; Allegro


Hlé


Þorkell Sigurbjörnsson: Fjögur íslensk þjóðlög (1986)
1. Ljósið kemur langt og mjótt
2. Björt mey og hrein
3. Yfir kaldan eyðisand
4. Það var barn í dalnum
Arnold Bax: Sónata fyrir klarínett og píanó (1943)
1. Molto moderato
2. Vivace
Chih-Yuan Kuo: Sónatína fyrir klarínett og píanó (1974)
1. Allegretto
2. Moderato
3. Allegro


Um flytjendur
Flytjendur eru samnemendur við Zürcher Hochschule der Künste og hafa
leikið saman sem dúó undanfarin ár.
Nia Maderski fæddist í Taívan og starfar sjálfstætt í Sviss. Hún hóf píanónám þriggja ára
gömul en tólf ára tók hún að læra á klarínett. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi af
tónlistarbraut í Taívan fluttist hún til Graz þar sem hún lærði hjá Stefan Schilling,
sólóklarínettuleikara hjá Symphonieorchester des Bayerischen Rundfunks. Hún hefur
unnið til fjölda verðlauna og styrkja í alþjóðlegum keppnum og á Masterklassnámskeiðum,
m.a. var hún styrkþegi hjá Yehudi Menuhin sjóðnum Live Music Now. Frá
2011 til 2012 starfaði hún sem sólóklarínettuleikari í National Taiwan Symphony
Orchestra. Eftir að hafa lokið náminu í Graz með hæstu einkunn fluttist hún til Zürich, þar
sem hún lauk prófi á sólóleikarabraut listaháskólans í Zürich með Matthias Müller sem
kennara. Hún lauk því námi einnig með hæstu einkunn og var ein tveggja nemenda sem
voru valdir fyrir hönd skólans til að leika einleik með hljómsveitinni Musikkollegium
Winterthur. Nia er fjölhæf tónlistarkona og hefur einnig stundað mastersnám í píanóleik
við listaháskólann í Zürich. Nú sem stendur lærir hún pianóleik hjá Friedemann Rieger.
Hún leikur reglulega - ýmist sem píanóleikari eða klarínettuleikari - á tónleikum í Sviss,
Austurríki, Spáni, Þýskalandi og Taívan.


Þóra Kristín Gunnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt hjá Dýrleifu Bjarnadóttur á Akureyri og
lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Árið 2011 fluttist hún til
Luzern í Sviss til að leggja stund á framhaldsnám í píanóleik. Þaðan lauk hún
mastersgráðu í píanókennslu og píanóleik, með samspil sem aukagrein, í janúar 2017.
Hún hlaut hæstu einkunn fyrir lokatónleika sína. Kennari hennar í Luzern var Yvonne
Lang en hún sótti reglulega kammertíma hjá m.a. Igor Karsko og Edward Rushton. Haustið
2017 hóf hún nám í samspili og meðleik við listaháskólann í Zürich, þar sem aðalkennari
hennar er píanóleikarinn Friedemann Rieger. Í Zürich sækir Þóra einnig tíma hjá öðrum
kennurum, m.a. Eckart Heiligers, píanóleikara í Trio Jean Paul. Þóra hefur tvisvar hlotið
styrk úr styrktarsjóði Birgis Einarssonar, 2014 og 2017, og styrk frá KEA 2011 og 2018.
Hún sækir oft masterklassnámskeið í einleik, ljóðaundirleik og kammertónlist. Samhliða
náminu sinnir Þóra píanókennslu og kemur fram á tónleikum á Íslandi og í Sviss með
hinum ýmsu söngvurum og hljóðfæraleikurum.

 

Tónleikarnir fengu styrk úr Menningarsjóði Akureyrarbæjar.