Menningarhúsið Hof

Saga Menningarhússins Hofs á Akureyri spannar rúman áratug. Ákvörðun um byggingu þess var tekin árið 1999 enda þörfin fyrir góða aðstöðu til tónleikahalds og aðra listviðburði óumdeild.

Árið 1999 ákvað ríkisstjórn Íslands að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgar- svæðisins með það að markmiði að bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi og efla um leið þá starfsemi. Á fundi ríkisstjórnar 11. febrúar 2003 var ákveðið að veita einum milljarði króna til byggingar menningarhúsa á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Þann 7. apríl sama ár undirrituðu Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, þáverandi bæjarstjóri á Akureyri, samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Skipuð var verkefnisstjórn, sem gerði tillögu um starfsemi í fyrirhuguðu menningarhúsi. Miðað skyldi við að húsið yrði um 3.500 m² og heildarkostnaður við verkið yrði ekki meiri en 1.200 m.kr. á verðlagi apríl 2003.

Verkefnisstjórnin skilaði greinargerð í byrjun nóvember 2003 til menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Í lok greinargerðarinnar var m.a. lagt til að menningarhúsið á Akureyri yrði á uppfyllingunni sunnan Strandgötu og austan Glerárgötu. Að efnt yrði til opinnar samkeppni um hönnun hússins í samræmi við samkeppnisreglur AÍ og að skipuð yrði 5 manna dómnefnd til að sjá um samkeppnina og skila niðurstöðum til menntamálaráðuneytis og Akureyrarbæjar. Í kjölfarið var skipuð dómnefnd til að hrinda þessu verki í framkvæmd.

Opnunarhátíð Hofs og vígsla hússins var á Akureyrarvöku dagana 27. til 29. ágúst 2010.

Staðsetning

Menningarhúsið Hof er staðsett í miðbæ Akureyrar og er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Aðalinngangur Hofs snýr í norðvestur. Útsýni er úr húsinu í allar áttir. Einnig er hægt að ganga út og inn um húsið að suðaustanverðu. Við aðalinnganginn er rennihurð og sunnanmegin er vængjahurð.

Aðkoman sunnanmegin hússins er mjög heillandi fyrir siglingafólk á minni bátum sem leggja við bryggju tengda húsinu, ferðamenn og aðra gesti. Einnig er hægt að ganga inn í húsið um forsalinn en opnun á þeim inngangi er háð þeim viðburðum sem þar fara fram.

Bílastæði

Bílastæði eru norðan og austan við bygginguna og hitalögn er í stéttum á helstu gönguleiðum. Almenn lýsing er að bílastæðum og göngulýsing við stíga.