Sumartónar með Fríkka Dór og Jóni Jónssyni
Það verður sannkölluð tónlistarveisla á sviði Hamraborgar í Hofi á Sumartónum Ungmennaráðs Akureyrar, Menningarhússins Hofs og Akureyrarbæjar í tilefni Barnamenningarhátíðar á Akureyri.
Hinir sívinsælu tónlistarmenn og bræður Frikki Dór og Jón Jónsson munu slá taktinn inní sumarið og spila sín uppáhaldslög af sinni alkunnu snilld í Sumartónum 2022. Það eru engir aðrir en Brenndu Bananarnir sem stíga á stokk í upphafi tónleikanna og hita gesti upp fyrir þá bræður.
Friðrik Dór hefur frá árinu 2009 gefið út poppaða tónlist með sterkum r&b-áhrifum við góðar undirtektir aðdáenda. Friðrik Dór á að baki fjórar breiðskífur sem hafa allar slegið í gegn.
Jón Jónsson var mikið í tónlist sem barn en hóf formlegan feril í bransanum árið 2010 þegar að hann gaf út lagið sitt “Lately”. Síðan þá hefur hann gefið út þrjár breiðskífur og fjöldann allan af lögum.
Hljómsveitin Brenndu Bananarnir frá Akureyri skrifa og semja öll sín lög sjálfir, syngja á íslensku og hafa það eitt að markmiði að fólk hafi gaman af því að hlusta á og sjá þau spila. Í hljómsveitinni eru Hekla Sólveig Magnúsdóttir, Grétar Ólafur Skarphéðinsson og Benedikt Ari Norðfjörð Björnsson.
Tónleikarnir hefjast kl. 17 og standa í klukkustund.
Sumartónar 2022 setja punktinn yfir i-ið á Barnamenningarhátíðinni á Akureyri í ár!
Enginn aðgangseyrir er á tónleikana ! Verið öll hjartanlega velkomin.