GARÐAR, GISSUR, ODDUR ARNÞÓR, DÍSELLA OG VALA GUÐNA ÓPERUDRAUGAR
ÓPERUDRAUGARNIR GANGA AFTUR Á HÁTÍÐARTÓNLEIKUM UM ÁRAMÓT Í HÖRPU OG HOFI
Stórsöngvararnir Garðar Thór Cortes, Gissur Páll Gissurarson, Dísella Lárusdóttir, Oddur Arnþór Jónsson og Valgerður Guðnadóttir breytast í Óperudrauga um áramótin en söngvararnir blása til hátíðartónleika í Hörpu og Hofi á Akureyri. Óperudraugarnir koma fram ásamt strengjasveit og píanóleikara en tónlistarstjóri Óperudrauganna er Óskar Einarsson sem löngu er landsfrægur fyrir útsetningar og tónlistarstjórn á stórviðburðum. Óperudraugarnir munu syngja uppáhalds sönglög sín og aríur á tónleikunum.
Söngvarana þarf varla að kynna fyrir nokkrum hérna heima á Íslandi. Gissur Páll hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á Rodolfo í La Boheme hjá Íslensku óperunni vorið 2012 og heldur áfram að syngja sig inn í hug og hjörtu Íslendinga. Dísella er að syngja í Metropolitan Óperunni núna í haust en þar syngur hún eitt aðalhlutverkanna í Óperunni Lulu eftir Alban Berg. Valgerður Guðnadóttir mun syngja hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla sem Íslenska Óperan er að fara að setja upp.
Garðar Thór Cortes hefur dvalið í Hamborg í Þýskalandi frá því lok sumars, en hann er þar að syngja aðalhltuverkið í söngleiknum “Love Never Dies” eftir tónskálið Andrew Lloyd Webber. Andrew lauk við endurgerðina í fyrra og sama tíma leitaði hann um allan heim að söngvurum í verkefnið. Söngleikurinn heitir uppá Þýsku “Liebe Stirbt Nicht - Phantom II” og er sýnt í einu virðulegasta tónlistarhúsi Þýskalands, Stage Operettenhaus í Hamborg. Garðar kemur sérstaklega heim til að taka þátt í Óperudraugunum og syngur ekki hér á landi í vetur.
Oddur Arnþór Jónsson sló eins og öllum er í fersku minni í gegn í Rakaranum frá Seville í Íslensku óperunni núna í haust. Hann kemur líka frá Þýskalandi til að taka þátt í verkefninu, en þar dvelur hann og vinnur alla jafna og fer beint að vinna í næstu uppsetningu Íslensku óperunnar að loknum Óperudraugunum núna í byrjun janúar.