Fara í efni
Dags Tími
03 .des '20 20:00

Menningarhúsið Hof býður menningarþyrstum íbúum landsins upp á tónleikaröðina Í HOFI & Heim í desember og janúar.

Tónleikarnir fara fram á sviði Hamraborgar fyrir framan gesti í sal, fjöldinn takmarkast við gildandi sóttvarnarreglur hverju sinni, en þeim verður einnig streymt á mak.is svo áhorfendur geta haft það huggulegt og notið tónleikanna líka í sófanum heima.

Á þessari tónleikaröð verður kynslóðunum teflt saman. Ungt listafólk frá Akureyri kemur fram þekktu listafólki svo úr verður nýr og forvitnilegur vinkill um leið og kunnuglegheitin eru til staðar. Listafólkið mun flytja bæði þekkt lög og sín eigin svo allir fái að njóta sín.

Magni Ásgeirsson hefur starfað sem tónlistarmaður meira og minna síðan hann gekk til liðs við fyrsta bandið sitt fyrir 29 árum - þá 13 ára. Hann hefur verið forsöngvari Á móti sól í 21 ár, gefið út sex plötur með bandinu auk þess sem þrjár sólóplötur og ótal önnur verkefni liggja eftir hann.

Tónlistarmaðurinn og hugsuðurinn Stefán Elí er einungis tvítugur en þrátt fyrir það hefur hann gefið út þrjár breiðskífur, haldið ótal tónleika og staðið fyrir skapandi verkefnum af ýmsum toga. Hann er fjölbreyttur lagasmiður og listamaður með einstaka nálgun þegar kemur að tónlistarsköpun. Stefán leggur upp með að veita fólki innblástur til þess að tengjast eigin sköpunarkrafti og lífsgleði í gegnum list, tjáningu og tónlist.

Á þessum tónleikum munu strákarnir leiða saman hesta sína og renna í sín bestu lög auk þess sem einhver lög sem tengjast jólunum gætu lent á efnisskránni.

Tónleikaröðin Í HOFI & Heim er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.