Fara í efni
Dags Tími
09 .jún '18 20:00

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur vakið nokkra athygli undanfarin ár fyrir öfluga starfsemi og á margan hátt óhefðbundið lúðrasveitarstarf og samstarf með þekktum listamönnum. Nú hefur lúðrasveitin látiðútsetja sérstaklega fyrir sig valin lög úr smiðju Magnúsar Þórs Sigmundssonar og það vita þeir sem til þekkja að úr nógu er að velja enda Magnús Þór einn af ástsælustu og afkastamestu lagahöfundum sem Íslendingar eiga. Sveitin fékk nokkra útsetjara til verksins sem hver um sig ljær verkum Magnúsar sérstakan blæ. Söngvarinn Stefán Jakobsson hefur vakið landsathygli fyrir sérstaka og kraftmikla rödd sína og gert garðinn frægan með hljómsveitinni Dimmu. Fer hann frábærlega með lög Magnúsar.

 

Um er að ræða tólf dásamlegar og vel þekktar dægurlagaperlur sem lúðrasveitin flytur annað hvort ein eða með söng Stefáns s.s. Álfar, Jörðin sem ég ann, Ísland er land þitt, Þú átt mig ein, Ást, Ef ég gæti hugsana minn, Dag sem dimma nátt, Blue Jean Queen o.s.frv. Magnús Þór mun kynna og segja sögurnar á bak við lögin auk þess að taka lagið.

 

Tónleikarnir hafa verið fluttir í Reykjavík, Hveragerði og Þorlákshöfn og hlotið frábærar viðtökur - og eru nú að koma á Akureyri - það er óhætt að lofa frábærri kvöldstund og gæsahúð alla leið!