Það verður líf og fjör hjá okkur í Menningarfélagi Akureyrar í Hofi á Akureyrarvöku, 29. - 30. ágúst.
Dagskráin hefst með tónleikum á föstudagskvöldinu kl 22:00 í Nausti í Hofi.
Laugardaginn 30. ágúst hefst fjölskyldudagskráin í Hofi kl 13:45 og stendur til kl 17:00
Tveir stórir viðburðir verða í Hamraborg; Fuglakabarettinn kl 14 og Opnum konfektkassann kl 16.
Fuglakabarettinn - er fjörugur og frumlegur kabarett um íslenska fugla. Þar stíga íslenskir fuglar á svið í leik og söng, hver með sína sérstöðu og hljóm. Verkið hefur verið flutt víða um land við miklar vinsældir og ávallt hrifið áhorfendur jafnt unga sem aldna.
Opnum konfektkassann - Gleðin tekur öll völd þegar afmælisárið verður kynnt í tali og tónum með lifandi og fjölbreyttum hætti. Konfektmolarnir eru ekki af verri endanum enda stútfullir af tónlist, leiklist og tali. Mjúkir og harðir molar sem vert er að kynna sér. Við sögu koma meðal annars Elskan, er ég heima?, Rokkland, Jóla - Lóla, Jólaglögg, Kafteinn frábær, Birtingur, Upptakturinn, Fiðringur og Jón Nordal ásamt mörgu öðru. Þetta er dagskrá sem ungir sem aldnir ættu ekki að láta fram hjá sér fara.
Óvæntur fylltur konfektmoli, GULLkort Menningarfélagins, mun gleðja einn heppinn gest í salnum!
Ekki láta þennan konfektkassa fram hjá þér fara - komdu, njóttu og upplifðu með okkur
Tónlistaratriði, listasmiðja fyrir börn, myndaveggur fyrir þig með leikmunum, smábollakökur, blöðrur og víkingagjörningur svo eitthvað sé nefnt.
Dagskrána má sjá á myndinni hér til hliðar en nánari upplýsingar um hvern einasta viðburð má finna á viðburðarsíðu www.mak.is
Dagskrá Akureyrarvöku í Hofi er styrkt af Akureyrarbæ og Menningarfélagi Akureyrar.