Fara í efni

Um Verðandi

Megintilgangur listsjóðsins VERÐANDI er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof og Samkomuhúsið sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem húsakynni Menningarfélags Akureyrar búa yfir, auk þess að stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði.

Stofnendur VERÐANDI eru Akureyrarbær, Menningarfélagið Hof og Menningarfélag Akureyrar. Listsjóðurinn varð formlega til 15. nóvember 2018. Samningur milli stofnenda hefur nú verið endurnýjaður til tveggja ára eða til ársins 2024. Það voru þau  Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, undirrituðu samkomulagið á dögunum. 

Fyrsta úhlutunin fór fram fyrir starfsárið 2019-2020  en þá bárust sjóðnum 24 umsóknir og 10 verkefni fengu brautargengi. Styrkþegarnir tíu stóðu fyrir fjölbreyttum viðburðum í Menningarhúsinu Hofi á tímabilinu 1. september 2019 til loka júní 2020.

„Það var afar ánægjulegt að fá svo fjölbreyttar umsóknir, sjá metnað listafólksins og vilja til að nýta sér aðstöðuna í Menningarhúsinu Hofi fyrir þeirra flottu og krefjandi viðburði. Við starfsfólk Menningarfélagsins hlökkum til að taka á móti þeim í hús. Þessir viðburðir verða áberandi í  í húsinu og verða vonandi mörgum til gleði,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélas Akureyrar og verkefnastjóri VERÐANDA.

 

Samkomulag:

1.gr. Samstarfsaðilar. Sjóðurinn heitir „Verðandi – listsjóður“ og er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar kt. 410169-6229, Menningarfélags Akureyrar kt. 431014-0330 og Menningarfélagins Hofs ses. kt. 670409-0740 um styrkveitingar til listafólks.

2. gr. Tilgangur og markmið. Megintilgangur verkefnisins er að styrkja listafólk til að nýta Hof og Samkomuhúsið sem vettvang fyrir listsköpun sína eins og nánar er tilgreint í vinnureglum um styrkina.

Helstu markmið styrkjanna eru að:

  • Auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnanna að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem Hof býður uppá.
  • Stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í Hofi.
  • Nýta þá möguleika sem Hof býður upp á fyrir fjölbreytta viðburði.

Úthlutunarnefnd getur haft frumkvæði að einstökum úthlutunum. Jafnframt er henni heimilt að  leggja sérstakar áherslur í styrkveitingum og veita styrki sem renna til verkefna er tengjast ákveðnum tilefnum (s.s. dagskrárröð viðburða eða vegna afmæla skálda). 

 3. gr. Framlag. Árlegt framlag Akureyrarbæjar til verkefnisins er ákveðið í fjárhagsáætlun stjórnar Akureyrarstofu og er með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Árlegt framlag Menningarfélagsins Hofs er ákveðið af aðalfundi félagsins og skv. sérstakri samþykkt þar um. Almennt er m.v. að árlegt framlag til verkefnisins sé fullnýtt á viðkomandi ári.

4. gr. Stjórn. Í úthlutunarnefnd, sitja þrír fulltrúar. Stjórn Akureyrarstofu skipar einn fulltrúa, stjórn Menningarfélagsins Hofs skipar annan og Menningarfélag Akureyrar skipar þann þriðja. Fulltrúi stjórnar Akureyrarstofu er formaður en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum á fyrsta fundi hennar. Æskilegt er að einn til tveir fagaðilar í listastarfi séu tilnefndir í úthlutunarnefnd fyrir hönd þeirra félaga sem þar eiga fulltrúa. Verði fulltrúi ófær um að gegna störfum vegna veikinda eða annarra annmarka eða segir sig frá nefndarstörfum þá skipar viðkomandi aðili nýjan í hans stað. Heimilt er að greiða fulltrúum í úthlutunarnefnd þóknun fyrir fundasetur sem kveðið er á um í vinnureglum sjóðsins sem samstarfsaðilar um sjóðinn og Menningarfélag Akureyrar samþykkja.

5. gr. Starfssvið og skyldur úthlutunarnefndar. 

Menningarfélag Akureyrar (MAk) annast utanumhald verkefnisins. Fjárreiðum þess skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri MAk. Fundaþóknun fulltrúa í úthlutunarnefnd, auglýsingakostnaður, fundakostnaður og annar tilfallandi kostnaður er greiddur af árlegu ráðstöfunarfé verkefnisins. Menningarfélag Akureyrar leggur því til starfsmann sem er viðburðastjóri þess. Hann starfar fyrir úthlutunarnefndina og situr alla fundi með málfrelsi og tillögurétt. Hann boðar fundi í samráði við formann.

Úthlutunarnefnd tekur árlega saman skýrslu um starfsemina og skrá um úthlutanir til styrkhafa. Skýrslan er send og kynnt fyrir stjórn Akureyrarstofu, stjórn Menningarfélagsins Hofs og á aðalfundi Menningarfélags Akureyrar.

6. gr. Úthlutanir.  Úthlutunarnefnd úthlutar styrkjum að jafnaði einu sinni á ári samkvæmt vinnureglum um styrkina.

7. gr. Breyting á samkomulagi.  Samstarfsaðilar geta hvor um sig óskað eftir endurskoðun á samkomulagi þessu.

8. gr. Gildistími. Samkomulag þetta gildir til ársloka 2023. Fyrir mitt ár það ár taka aðilar samstarfsverkefnisins upp viðræður um mögulegt framhald þess.

Samkomulag þetta er staðfest með undirskriftum þessum:

Akureyri 31. mars 2022

F.h. Akureyrarbæjar: Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri
F.h. Menningarfélags Akureyrar: Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri
F.h. Menningarfélagsins Hofs: Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar MH