Fara í efni

Jákvæður viðsnúningur hjá MAk

 Jákvæður viðsnúningur hjá Menningarfélagi Akureyrar

Aðalfundur Menningarfélags Akureyrar var haldinn í gær, 31. október 2017.  Á fundinum lagði Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, fram skýrslu síðasta starfsárs ásamt ársreikningi félagsins. „Umtalsverður viðsnúningur hefur orðið á rekstri félagsins og skilar það 2,6 m.kr. rekstrarafgangi eftir starfsárið 2016-2017 miðað við rúmlega 14 m.kr. tap á árinu þar á undan,“ sagði Þuríður í framsögu sinni um ársreikning félagsins. 

 Þuríður Helga þakkaði árangurinn samstilltu átaki alls starfsfólks MAk. „Starfsfólk og sérstaklega sviðsstjórar hafa sýnt mikið aðhald og farið nákvæmlega eftir fjárhagsáætlunum þeirra verkefna sem þeir bera ábyrgð á.“  

Þessi frábæri árangur næst þrátt fyrir að Menningarfélagið hafi búið við 27,5 m.kr. niðurskurð á síðasta ári vegna fyrirframgreiðslu sem félagið fékk frá Akureyrarbæ 2016 og þrátt fyrir að það búi enn við það að fjárframlög leiklistarsviðs þess hafa ekki hækkað miðað við vísitölu síðastliðin 10 ár. Það er mat stjórnar MAk að félagið hafi nú náð stöðugleika í rekstri sem gerir því kleift að sinna af krafti hlutverki sínu sem framsækið og öflugt menningarfélag. „Ljóst er að nú verður að koma til leiðrétting á framlögum til félagsins og hækkun sem gerir því kleift að standa við skuldbindingar sínar um atvinnurekstur í listum og framleiðslu á stærri listviðburðum sem laða að gesti handan heiða,“ sagði Þuríður Helga jafnframt. 

Félagið stendur á tímamótum því þriggja ára tilraunatímabili þess lýkur nú um áramótin. Tilraunatímabilið gekk út á að sameina krafta Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Menningarhússins Hofs til að ná auknum slagkrafti menningarstarfs á svæðinu og bæta nýtingu fjármagns. Á aðalfundinum kom fram vilji allra félaganna þriggja til áframhaldandi samreksturs, enda stendur félagið traustum fótum og hefur sýnt fram á ótvíræða kosti þessarar samvinnu. Mikil ánægja ríkir með starfsemi félagsins innan aðildarfélaganna, hjá Akureyrarbæ og meðal íbúa á Norðurlandi, sem tóku sérstaklega vel í áskriftarkortasölu yfirstandandi starfsárs en hún hefur nær fjórfaldast frá síðasta ári.  

Til baka