Fara í efni

Vínartónleikar, skrímslin, útgáfutónleikar, óperur, Regnbogaland og Upptakturinn!

Nýtt ár er hafið og viðburðir í Menningarhúsinu Hofi í þessum fyrsta mánuði ársins eru ekki af verri endanum!

Vínartónleikar Kvennakórsins Emblu fara fram í Hömrum sunnudaginn 7. janúar klukkan 17. Einsöngvari er hin glæsilega sópransöngkona Margrét Árnadóttir en stjórnandi Roar Kvam. 

Stóra stundin, og það sem margir krakkar hafa eflaust beðið eftir, verður 13. janúar þegar Leikfélag Akureyrar frumsýnir Litla skrímslið og stóra skrímslið í Svarta kassanum í Hofi. Verkið er byggt á vinsælu bókunum hennar Áslaugar Jónsdóttur. Með hlutverk skrímslanna fara Margrét Sverrisdóttir og Hjalti Rúnar Jónsson. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir.

Útgáfutónleikar Kristjönu Arngrímsdóttur verða í Hamraborg 18. janúar. „Ég hitti þig“ er fimmta plata söngkonunnar Kristjönu Arngrímsdóttur og inniheldur lög hennar við ljóð fimm íslenskra kvenna. 

Stórsöngavararnir Gísli Rúnar Víðisson og Guðrún Ösp Sævarsdóttir ásamt Daníel Þorsteinssyni píanóleikara munu flytja margar af þekktustu óperuaríum allra tíma í bland við aðrar íslenskar og erlendar perlur á tónleikunum  Nú blæs úr norðri sem fram fara í Hömrum 20. janúar. Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningafélags Akureyrar.

Sunnudaginn 21. janúar er komið að dans- og tónlistarsmiðju fyrir börn; Leitin að regnboganum. Sögusviðið í smiðjunni er Regnbogaland og leitin að regnboganum er þema sögunnar. Guðný Ósk Karlsdóttir mun leiða börnin í gegnum söguna og syngja fyrir þau. Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð.

Að lokum minnum við á að í dag, 4. janúar, var opnað fyrir umsóknir í Upptaktinn.  Upptakturinn er fyrir börn og ungmenni í 5.-10. bekk og lögð er áhersla á að hvetja krakkan til að semja tónlist og styðja þau í fullvinnslu hugmyndar. Nánari upplýsingar um Upptaktinn og miðasala á alla viðburðina er á mak.is. 

Til baka