Fara í efni

Pláneturnar, Þrek og tár og ljóðrænt raunsæi

Helgin í Hofi er ekki af lakari kantinum!

Laugardaginn 17. febrúar er komið að tónleikunum Þrek og tár þar sem söngvaranna Erlu Þorsteinsdóttur og Hauks Morthens er minnst. Flest muna eftir Erlu og Hauk enda voru þau einir vinsælustu söngvarar á Íslandi á 20. öldinni. Söngvarar á viðburðinum eru Daníel Arnar, Hreindís Ylva, Svavar Knútur og Una Torfadóttir. Uppselt er á viðburðinn. 

Á sunnudeginum er komið að stóru stundinni þegar fjölskyldu- og vísindatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Pláneturnar – Ævintýri sólkerfisins, fara fram í Hofi. Sögumaður verður enginn annar en Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar sem mun leiða gesti um leyndardóma himinhvolfsins í samhljómi við flutning SN á Plánetunum eftir Gustav Holst. Sérstakt barnaverð fyrir tólf ára og yngri. Á undan tónleikunum mun Stjörnu-Sævar halda kynningu á tónskáldinu, verkinu og Plánetunum sjálfum á veitingastaðnum Móa í Hofi. Kynningin hefst kl. 15 og eru öll velkomin. 

Í Hofi stendur einnig yfir myndlistarsýning Stefáns Boulter, Eilífði í Augnabliki. Stefán hefur kosið að kalla það sem hann gerir „ljóðrænt raunsæi“. Hann býr til táknmyndir sem eru frásagnarlegs eðlis, bæði persónulegar og byggðar á þekktum og fornum grunni. Sýningin stendur yfir til 11. apríl. 

Að lokum minnum við á að nú nálgast frumsýning á verki Þorvaldar Þorsteinssonar, And Björk of course, sem Leikfélag Akureyrar sýnir í Samkomuhúsinu. Athugið að sýningin er ekki fyrir viðkvæma.

Til baka