Fara í efni

Leikfélög MA og VMA sýna í Samkomuhúsinu næsta vetur

Menningarfélag Akureyrar, Leikfélag Menntaskólans á Akureyri og Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri hafa gert með sér samning um að sýningar félaganna verði í Samkomuhúsinu næsta vetur. Sýningartimi á verkum þeirra er skipulagður í kringum framleiðslu MAk í Samkomuhúsinu og er það gert að frumkvæði Leiklistarsviðs MAk. Með þessu móti fær leiklistarstarfsemi skólanna beggja heimili, sem er öllum til hagsbóta.

Sýning Leikfélags MA, Konungur ljónanna, sem sýnd var í Samkomuhúsinu nú á vormánuðum fékk frábæra aðsókn og góður rómur var gerður að henni. MAk fagnar því að framhald verði á leiksýningum félagsins í húsinu. Leikfélag VMA frumsýnir í haust sýningu í Samkomuhúsinu og Leikfélag MA að vori.

„Það er fagnaðarefni að MAk nái að fóstra þessi verkefni og skapa þannig ungum sviðslistamönnum tækifæri til þess að blómstra, ” segir Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Hann bætir því við að „næsta leikár MAk mun einkennast meðal annars af fjölbreyttri dagskrá í Samkomuhúsinu; bæði eigin framleiðslu og tíðari gestasýningum. Auk þess verður stutt betur við samfélagsleg verkefni. Samkomuhúsið verður þannig ekki bara leikhús heldur í raun gróðurhús í sviðslistum, ” segir Jón Páll og greinir frá því að leiklistarsviðið muni einbeita sér að því að fóstra verkefni af svæðinu sem eru frumsköpuð og hafa samfélagslega tengingu og áhrif. Þar á meðal má nefna verkefni sem hinn ungi leikhópur Næsta Leikrit er með í bígerð og er einn af

„ græðlingunum” í gróðurhúsinu á næsta leikári. Verkið heitir Listin að lifa en fyrsti samlestur á því var Borgarasal Samkomuhússins á dögunum og verður það frumsýnt í Samkomuhúsinu 30. september. „Það er hlutverk okkar að tryggja fjölbreytni í menningarframleiðslu á Norðurlandi og ég tel að því verði meðal annars náð með því að við hlustum á grasrótina og gefum henni góðan jarðveg til næringar og tækifæri til þess að hitta og hrífa áhorfendur,” segir Jón Páll að lokum.

Til baka