Fara í efni
Dags Tími
01 .nóv '17 20:00

Vetrarferðin er eitt áhrifamesta söngverk tónbókmenntanna. Franz Schubert samdi ljóðaflokkinn á síðustu árum stuttrar ævi sinnar, við ljóð Wilhelm Müller. Vetrarferðin eru 24 innhverf ljóð þar sem ungur förusveinn fer í gegnum ferli höfnunar og ástarsorgar. Hann yfirgefur hús ástkonu sinnar og gengur út í myrkrið og snjóinn á kaldri vetrarnóttu með tungsljósið eitt sem förunaut. Á göngunni upplifir hann söknuð, sorg, reiði og einmanaleika, með einstaka vonarglætu og minningum um grænt sumar og blómstrandi ást.

Oddur Arnþór Jónsson lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum háskólann í Salzburg, Austurríki. Hann hlaut Lilli Lehmann viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf. Oddur var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir hlutverk sitt í Don Carlo árið 2014, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni. Hann var tilnefndur sem söngvari ársins 2014, 2015 og 2016 fyrir hlutverk sín í Don Carlo, Rakaranum í Sevilla, Don Giovanni og Solomon á Kirkjulistahátíð. Sem ljóðasöngvari hefur hann meðal annars flutt Schwanengesang á Schubert hátíðinni í Vilabertran á Spáni og Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París. Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Hann fékk Schubert verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríu flytjandinn í Francesc Viñas keppninni í Barcelona. Hann sigraði Brahms keppnina í Pörtschach í Austurríki og hlaut þriðju verðlaun í Schubert keppninni í Dortmund, Þýskalandi.

 

Somi Kim  er fædd í Suður Kóreu en ólst upp í Nýja-Sjálandi. Hún býr og starfar í London eftir að hafa lokið námi við Royal Academy of Music í London. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun, t.d. The Gerald Moore Award for Accompanists, Royal Over-Seas League Accompanist Prize, AESS Patricia Routledge National English Song Accompanist Prize, Bromgrove International Musicians Competition Accompanist Prize, Vivian Langrish Memorial Trust Prize og Thomas Art of Song Accompanist Prize. Hún hefur komið fram í Wigmore Hall, Het Concertgebouw, Slavak Philharmonic, St. John’s Smith Square, Cadogan Hall, Bridgewater Hall og Oxford Lieder Festival.

 

Oddur og Somi hafa unnið saman í rúmt ár. Þau héldu tvenna tónleika hérlendis í febrúar síðastliðnum, Schubert ljóðatónleika í Hallgrímskirkju og ljóðatónleika í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Schubert tónleikarnir voru hljóðritaðir af RÚV og sendir út í heild sinni í þættinum Úr tónlistarlífinu.Þau flytja Vetrarferðina þrisvar sinnum í október og nóvember. Fyrstu tónleikarnir verða 22. október í London, 1. nóvember í Hofi á Akureyri og 5. nóvember í Salnum, Kópavogi.