Dagsetning: 01.01.1970
Tími: 00:00
Salur: Hamraborg

Sinfónískar konur

Frumflutningur á hljómsveitarverkinu Ólafur  Liljurós í tilefni aldarafmælis Jórunnar Viðar.


Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar hljómsveitarverkið „Ólafur Liljurós“ eftir eitt af höfuðtónskáldum Íslendinga, Jórunni Viðar, verður flutt í fyrsta sinn í upprunagerð fyrir sinfóníuhljómsveit undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur.

Jórunn Viðar, sem lést á síðasta ári, hefði náð aldarafmæli nú í desember en hún samdi tónlistina við söguna af riddaranum hjartahreina sem ballettverk fyrir Leikfélag Reykjavíkur árið 1952. Þá var verkið flutt í smækkaðri mynd en mun nú hljóma í fyrsta sinn á tónleikum með réttri stærð hljómsveitar og öllum þeim blæbrigðum sem Jórunn kallar fram með sinni alkunnu snilld í skrifum fyrir sinfóníska hljómsveit. Jórunn Viðar var frumkvöðull á sviði ballett- og kvikmyndatónlistar hér á landi og samdi fyrstu íslensku kvikmyndatónlistina við myndina „Síðasti bærinn í dalnum“ auk fjölmargra þjóðþekktra sönglaga.

Tónleikarnir hefjast á „Forleik“ eftir Fanny Mendelssohn Hensel. Fanny Mendelssohn stundaði bráðung nám í tónsmíðum ásamt yngri bróður sínum, Felix, sem hlaut frægð og frama. En þetta var snemma á 19. öld og Fanny fékk ekki að njóta sín sem tónskáld. Þegar hún varð eldri var henni hreinlega bannað að sinna tónlist, það þótti ekki hæfa konum nema til skrauts, og sum verka hennar í fyrstu gefin út undir nafni bróður hennar. Hún hélt þó ótrauð áfram að semja, sérstaklega eftir að hún fór úr foreldrahúsum. Með nýrri vakningu hafa verk hennar nú fengið að hljóma í auknum mæli.

Verkið „Hrím“ er eftir eitt af fremstu samtímatónskáldum Íslendinga, Önnu Þorvaldsdóttur. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun, m.a. Norrænu tónlistarverðlaunin 2012, og var talin meðal áhugaverðustu kventónskálda í heiminum af Washington Post í nýlegri umfjöllun blaðsins um konur í tónlist. Verk hennar eru reglulega flutt um allan heim og gefin út m.a. af Deutsche Grammophon.

Síðasta verk fyrir hlé er verkið „Eldur“ eftir Jórunni Viðar og mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands því leika bæði ballettverk Jórunnar á sömu tónleikunum. Eldur er talsvert styttra verk en Ólafur Liljurós sem verður leikinn eftir hlé en Eldur var saminn við ljóð Einars Benediktssonar. Í verkinu sem og í ljóðinu má heyra lýsingar á logandi eldi sem hjaðnar niður í glæður en blossar svo aftur upp.

Höfundar: Jórunn Viðar, Anna Þorvaldsdóttir og Fanny Mendelssohn Hljómsveitarstjóri: Hallfríður Ólafsdóttir