Fara í efni
Dags Tími
26 .ágú '17 15:00

Piparjúnkan og þjófurinn er stórskemmtileg gamanópera í einum þætti eftir tónskáldið Gian Carlo Menotti. Verkið fjallar um slúður og leyndarmál í litlum hljóðlátum bæ. Hin miðaldra piparjúnka, Miss Todd, eyðir flestum dögum sínum í það að prjóna og slúðra með annarri piparjúnku, Miss Pinkerton. Einn daginn snýst heimur þeirra á hvolf þegar að flakkari knýr dyra hjá Miss Todd. Hún og þerna hennar, Laetitia, verða báðar bálskotnar í myndarlega förumanninum og vilja endilega veita honum húsaskjól jafnvel þó þær komist svo að því að hann gæti mögulega verið strokufangi. En þær grunar aldrei hversu langt þær væru til í að ganga fyrir smá tilbreytingu í smábæjarlífið.

Menotti samdi The Old Maid and the Thief upphaflega fyrir flutning í útvarpi og var hún frumflutt árið 1939 á NBC Radio. Verkinu var vel tekið og því var ákveðið að aðlaga það að sviði og var það fyrst sett upp árið 1941 í Philadelphia. Því var einnig vel tekið sem sviðsverki og hefur allar götur síðan verið vinsælt viðfangsefni óperuhópa og -húsa um allan heim. Menotti skrifaði óperuna eftir að hafa heimsótt fjölskyldu Samuel Barber, sem var lífsförunautur hans, í smábænum sem þau bjuggu í. Honum fannst skemmtilegt að smábær, sem virtist rólegur og sætur, væri í raun uppfullur af allskonar leyndarmálum um fólkið þar og staðina.

 

Þess má geta að frítt verður inn á viðburðinn í tilefni Akureyrarvöku og verður hleypt inn á meðan húsrúm leyfir. Þetta er því tilvalið tækifæri til að kynnast hinu skemmtilega formi óperunnar.

 

Tónskáld: Gian Carlo Menotti

Tónlistarstjóri: Matthildur Anna Gísladóttir

Leikstjóri: Jenný Lára Arnórsdóttir

Söngvarar: Elfa Dröfn Stefánsdóttir

                   Unnur Helga Möller

                   Ívar Helgason

                   Edda Björk Jónsdóttir