Fara í efni
Dags Tími
06 .maí '18 10:00

Hjálpar týndum höfundum að finna sig

 

„Það eru ótal margir efnilegir höfundar um allt land. Margir þeirra pikkfastir með eina eða þúsund frábærar hugmyndir í skúffunni. Mitt markmið er að losa um stífluna og koma hugmyndaflæðinu aftur af stað,“ segir Árni Kristjánsson, leikstjóri og leikritahöfundur.

 

Árni leiðir leikritunarvinnusmiðju þann 6. maí næstkomandi í Samkomuhúsinu á Akureyri en vinnusmiðjan er á vegum MAk og leikhópsins Lakehouse. Í vinnusmiðjunni gefst reyndum og óreyndum höfundum tækifæri til að endurmeta verk sín, gera skapandi æfingar og fá leiðsögn um það sem þarf að gera til að fylgja hugmyndinni eftir. Vinnusmiðjan er átta tíma löng og svo bætist ofan á það opin samkoma um kvöldið þar sem brot úr verkunum verða leiklesin fyrir áhugasama.

Árni hefur áður kennt leikritun í Kvikmyndaskólanum, Tjarnarbíó og á vinnusmiðju á Vestfjörðum sem hét Okkar eigin. Sjálfur skrifaði Árni útvarpsverkið Söngur hrafnanna sem vann Grímuna fyrir besta útvarpsleikrit árið 2014 og fjallaði um eitt ástælasta skáld Akureyringa, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

 

„Ég var í tómu basli með Söng hrafnanna og þurfti að kenna sjálfum mér að skrifa frá grunni. Til þess notaði ég reynslu mína sem leikstjóri og spunaleikari og hafa þessar aðferðir nýst mér síðan. Ég hef líka lært mikið um ritlistina í gegnum kennslu vegna þess að höfundar eru svo æðislega ólíkir.“

 

Árni útskýrir að í vinnusmiðjunni þurfa höfundar að þora að lesa upp úr verkum sínum og leiklesa verk annarra og taka virkan leikrænan þátt. Þátttakendur þurfa þó alls ekki að vera með reynslu af leiklist. Vinnusmiðjan er því líka góð til að efla þor og tjáningu þeirra sem eru ekki eins vanir því. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á lakehousetheatre@gmail.com en fjöldi þátttakenda er afar takmarkaður og því gott að skrá sig sem fyrst. Þátttökugjaldið er 12 þúsund krónur á mann.