Fara í efni
Dags Tími
05 .sep '17 11:30

 Bókmenntahátíð á Akureyri er nú haldin í fyrsta sinn og dagskrá hennar unnin í afar góðu samstarfi Menningarfélags Akureyrar og Amtsbókasafnsins á Akureyri við Bókmenntahátíðina í Reykjavík. Við þjófstörtum og hefjum leikinn hér norðan heiða degi áður en Bókmenntahátíðin í Reykjavík hefst.  

Tveir erlendir rithöfundar taka þátt en það eru þær Anne-Cathrine Riebnitzsky og Esmeralda Santiago.

Anne-Cathrine Riebnitzsky er danskur rithöfundur með óvenjulegan bakgrunn, en hún var í danska hernum og fór með honum til Afganistan 2007, fyrst sem óbreyttur hermaður en síðar sem ráðgjafi á vegum utanríkisráðuneytisins. Í Afganistan starfaðir Riebnitzsky meðal annars með stríðshrjáðum konum og hefur sú reynsla orðið henni að yrkisefni í verkum hennar þar sem hlutskipti kvenna og barna í stríði hefur verið áberandi stef. Frumraun hennar var ævisögulegt uppgjör við árin í Afganistan og nefndist Stríð kvennana (Kvinderens krig) en hún kom úr 2010.  Nýjasta bók Riebnitzsky, Stormarnir og stillan er nýkomin út á íslensku.

Esmeralda Santiago er þekktust fyrir endurminningabækur sínar sem fjalla meðal annars um þá reynslu að tilheyra tveimur löndum, en sjálf fæddist hún á Puerto Rico og fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hún var þrettán ára.  Tvær endurminningabókanna hafa verið gefnar út í íslenskri þýðingu Herdísar Magneu Hübner hjá bókaforlaginu Sölku, en það eru bækurnar Stúlkan frá Púertó Ríkó og Næstum fullorðin. Í bókunum dregur Santiago upp ljóslifandi myndir úr lífi ungrar konu í New York á sjöunda áratugnum og lýsir togstreitunni sem þrá hennar eftir menntun hefur í för með sér. Nýjasta bók hennar heitir Conquistadora og er söguleg skáldsaga sem gerist á Puerto Rico en hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.

Tveir viðburðir verða á bókmenntahátíðinni: Höfundamót, höfundar, sögupersónur, lesendur kl. 11.30 þriðjudaginn 5. september og Maður á mann þar sem þeir Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður fara á trúnó við hina erlendu gesti kl. 17.00.

Allir eru hjartanlega velkomnir á hátíðina. 

Hér má sjá nánari dagskrá. 

 

Bókmenntahátíð

Á Bókmenntahátíðinni munu þau Margrét H. Blöndal, Þórgunnur Oddsdóttir, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Megas og Hlynur Hallsson lesa uppúr verkum sínum Pastel.  Pastel er gefið út af menningarstaðnum Flóru á Akureyri. Júlía Runólfsdóttir grafískur hönnuður sá um hönnun og uppsetningu ritanna. Fyrirmynd að ofur hversdagslegu útliti Pastels eru Aðalfundargerðir Sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu frá því um miðja 20. öld. Hvert rit er gefið út í 100 tölusettum og árituðum eintökum. Um er að ræða frumútgáfu verka, sem ekki hafa birst áður. Þau koma úr ranni höfunda sem ekki eru endilega rithöfundar, samanstanda af blöndu texta og mynda í mismunandi hlutföllum og endurspegla samtíð okkar á mjög persónulegan hátt.