Flyglar hússins

Tveir konsertflyglar eru í Hofi og eru þeir af tveimur gerðum, Steinway annars vegar og hins vegar Bösendorfer. 

Bösendorfer flygillinn var keypur nýr fyrir Hof sumarið 2010 og var hann framlag KEA til hússins. Flygillinn er sagður vera með opinn ljóðrænan tón og henta sérstaklega vel fyrir einleik og kammerspil. Píanóleikarinn Daníel Þorsteinsson var ráðgjafi í vali flygilsins.
Steinway flygillinn, oftar nefndur Ingimarsflygillinn, hefur undanfarin ár verið staðsettur í Laugarborg, tónlistarhúsi Eyjafjarðarsveitar. Flygillinn var keyptur fyrir söfnunarfé til minningar um Ingimar Eydal árið 1997, en það var hjartans mál Ingimars að Akureyringar ættu góðan flygil. Flygillinn er af gerðinni Steinway D og voru það Jónas Ingimundarson píanóleikari og Leifur Magnússon hljóðfærasmiður sem völdu hann á sínum tíma. 

Flyglarnir tveir hafa mjög ólíkan karakter og voru þeir valdir með tilliti til salanna í Hofi, Hamraborgar og Hamra.

Viðburðahaldarar geta fengið afnot af þessum glæsilegu hljóðfærum þegar komið er fram í Hofi.