SAMSTARF SN OG TÓNLISTARSKÓLA AKUREYRAR

Kammerhljómsveit Akureyrar  var stofnuð árið 1987 af hljóðfæraleikurum sem flestir voru starfandi kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri. Við skólann hafði til margra ára verið starfrækt nemendahljómsveit sem kennarar veittu liðsauka þegar tónleikar nálguðust. Hélt sú hljómsveit tónleika undir nafninu Kammerhljómsveit Tónlistarskólans á Akureyri. Á níunda áratug síðustu aldar varð hlutur kennara og utanaðkomandi hljóðfæraleikara í þeirri hljómsveit sífellt meiri og 1987 var nafni hljómsveitarinnar breytt og tónleikar haldnir í fyrsta skipti undir merkjum Kammerhljómsveitar Akureyrar. Síðan þá hefur heilmikið vatn runnið til sjávar og hljómsveitin tekið upp núverandi nafn og vaxið og dafnað. Nemendur á efri stigum tónlistarskólans hafa lagt hljómsveitinni lið þegar mikið liggur við eins og t.d á stórtónleikum á skírdag ár hvert. Hefð hefur myndast með þessa tónleika hjá SN og þeir eru jafnframt  stærsta verkefni SN á hverju tónleikaári. Þessir tónleikar eru í samstarfi við Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Tónlistarskólann á Akureyri og aðra tónlistarskóla þar sem félögum í USÍ og langt komnum nemendum býðst að taka þátt.