LEIKFÉLAG AKUREYRAR

Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhús landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Það er rekið með stuðningi Akureyrarbæjar á grunni samnings við Menntamálaráðuneytið. Saga Leikfélagsins spannar nú nær heila öld, en félagið varð atvinnuleikhús árið 1973. LA sem nú er leiklistarsvið MAk hefur sitt aðal aðsetur í fallegu húsi sem stendur nærri hjarta Akureyrar, Samkomuhúsinu, sem tekur 210 manns í sæti. Samkomuhúsið er hefðbundið leikhús með sviði, upphækkuðum sal og svölum. Leiklistarsvið MAk mun einnig sviðssetja verkefni sín á sviðum Hofs. Hamraborg og Hömrum.  Verkefnaskrá LA hefur í gegnum tíðina verið fjölbreytt, klassísk íslensk og erlend verk, ný íslensk og erlend verk, barnaleikrit og söngleikir.  Leiklistarsvið MAk sviðsetur  þrjár-sjö leiksýningar á eigin vegum og í samstarfi við aðra auk ótal styttri sýninga og smærri viðburða. Fjöldi nýrra íslenskra verka hefur verið frumsýndur hjá LA og listamenn leiklistarsviðs MAk  vinna reglulega með listamönnum sem einbeita sér að frumsköpun.  Fjöldi fastráðinna leikara er nokkuð breytilegur á milli tímabila en leikhópurinn hefur talið 4-11. Gestir MAk koma frá landinu öllu og í gegnum tíðina hefur verið vinsælt að fara í leikhúsferðir til Akureyrar til að sjá þær leiksýningar sem eru á boðstólum.

Auk uppsetninga leiksýninga þá hefur Leikfélag Akureyrar rekið Leiklistarskóla LA frá árinu 2009. Leiklistarsvið MAk rekur nú leiklistarskóla LA eða LLA. Skólinn er fyrir ungt fólk í 4. - 10. bekk grunnskóla. LLA hefur nú aðsetur í Hofi. Leiklistarsvið MAk á í samstarfi við fjölda aðila, skóla og menntastofnana um námskeiðahald, uppsetningar á leikverkum og fleira.

Hér má sjá nokkrar ljósmyndir úr langri sögu LA