Gróðurhús Leikfélags Akureyrar- Fósturverkefni

Eitt af markmiðum LA er að rækta hæfileika ungs listafólks í frumsköpun í sviðslistum, að vera gróðurhús fyrir hugmyndir, staður þar sem draumar rætast. Rödd ungs fólks er mikilvæg og skapa þarf tækifæri fyrir unga listamenn til að eiga stefnumót við áhorfendur. Við viljum að spurningum og rannsóknum borgaranna sé veittur skapandi vettvangur í leikhúsinu. Þessum markmiðum viljum við ná með Gróðurhúsi LA.

Við auglýsum eftir verkefnum frá sviðslistafólki til að verða fósturverkefni Leikfélags Akureyrar.  Þau sviðslistaverkefni sem sem valin eru verða hluti af leikárinu 2018-2019. Umsóknir þurfa að uppfylla eftirfarandi kröfur.

Verkefnið sé frumsamið sviðslistaverkefni.
Umsækjendur eða efnistök hafi sterka tengingu við Norðurland.
Umsækjendur séu atvinnumenn í sviðslistum.

Auk þess er Listrænum stjórnendum falið að gæta umhverfissjónarmiða við sviðsetningu. Tillit skal tekið til vistspors og sóun á hráefnum skal vera í  lágmarki. Kynjahlutöll skulu vera sem jöfnust innan verkefnisins. 

 Þau verkefni sem veljast í Gróðurhús LA fá eftirfarandi stuðning:

  • Aðstoð við skipulagningu og verkefnastjórnun
  • Aðstoð við gerð kynningarefnis og kynningu á verkefninu á vegum MAk í viðeigandi miðlum.
  • Sýningar og æfingaraðstöðu fyrir verkefnið í Samkomuhúsinu.
  • Aðstoð frá miðasölu, framhúsi, tæknideildum og aðgang að tæknibúnaði.
  • Aðgang að leikmuna og búningasafni.

Það er okkar von að Gróðurhús LA verði til þess að búa frumsköpuðum sviðlistaverkefnum vettvang til þess að verða að veruleika og listamönnum að eiga stefnumót við áhorfendur.

Lokað hefur verið fyrir umsóknir fyrir Gróðurhús LA leikárið 2018-2019.