BORGARASVIÐIÐ

Borgarasviðið- sögurnar sem við segjum um okkur sjálf.

Dans söngur og sögur

Um mitt ár 2015 setti Leikfélag Akureyrar verkefnið Borgarasviðið  á laggirnar og í maí 2016 frumsýndi LA  fyrstu sviðsetningu Borgarasviðsins sem hét “Leiðsögn fyrir innfædda”. Áhorfendur fengu leiðsögn frá Hofi að Samkomuhúsi undir stjórn kvenna sem allar eiga það sameiginlegt að vera allar af erlendu bergi brotnar og búsettar á Akureyri. Í Samkomuhúsinu voru þær svo með dagskrá með dansi, söng og sögum.

Lýðræðislegt rými

Víða í Evrópu og á hinum Norðurlöndunum er þetta þekkt leikhúsform og er að festa sig í sessi sem leið til þess að gefa spurningum og rannsóknum borgaranna snertiflöt við  sitt samfélag með tækjum og meðulum leikhússins. Þannig er leikhúsið lýðræðisvætt sem rými fyrir borgarana.

Leikfélagi Akureyrar er kært það líf sem lifað er allt um kring og forvitið um þær sögur sem borgarar Akureyrar eru með í farteskinu. Borgarasviðið er staður fyrir þá sem hafa eitthvað að segja um samfélagið og vilja að taka áskorun hins listræna ferlis. Við viljum skapa rými til uppgötvunar, rannsókna, könnunarleiðangra. Forvitni og löngun til þess að leika sér, deila og uppgötva er megin markmið hins listræna ferlis og sviðsetninga Borgarasviðsins.

Leiklistarreynsla eða reynsla af textalærdóm er ekki nauðsynleg. 

Mennska, forvitni og fjölbreytileiki

Leikfélag Akureyrar vill  með Borgarasviðinu gefa borgurum Akureyrar tækifæri til að upplifa leikhúsið sem rými þar sem fólk hittist, hefur samskipti og tengist skapandi,þvert á aldur, kyn og félagslegan bakgrunn.

Aðgengi ,mennska, hlutdeild, fjölbreytileiki, forvitni og gjafmildi eru vörður Borgarasviðsins. Þegar við stöndum á sviðinu sjáum við heiminn og okkur sjálf með öðrum augum.

Borgarasvið LA hefur hlotið nokkra athygli erlendis frá og var boðið  á NOFOD ráðstefnu um " Dans og Lýðræði" júní 2017 þar sem verkefnið var kynnt.

Leikhússtjóri mun leiða vinnu Borgarasviðsins 2017 -2018. Fyrsti kynningarfundur verður á fundi fólksins 8. september. Í kjölfarið verða örnámskeið og vinnustofur með fjölda listamanna til innblásturs og hvatningar.

Jón Páll Eyjólfsson 
Leikhústjóri Leikfélags Akureyrar