Fara í efni
Dags Tími
10 .mar '17 20:00

SkonRokk var í upphafi hugarfóstur trommuleikarans ljúfa Bigga Nielsen, sem leikið hefur með mörgum af vinsælustu hljómsveitum síðustu tveggja áratuga.  Fyrsta giggið voru svakalegir rokktónleikar í Höllinni í Vestmannaeyjum, þar sem rokkað var „til heiðurs sjómönnum“ .  Það hefur síðan verið gert á hverju ári með einni undantekningu og frá þeim tíma hefur verkefnið verið unnið í sameiningu Bigga og Dadda, í Höllinni í Eyjum.

Síðustu árin hafa verið haldnir SkonRokkstónleikar í Reykjavík og á Akureyri og það nánast á hverju ári.  Einnig hefur Hammondhátíðin á Djúpavogi verið heimsótt og Sjóarinn síkáti í Grindavík.

En það er kominn tími til að taka þetta alla leið og nú stendur til að leita svara við því hvar rokkið, þessi kraftmikla tónlistarstefna, fæddist og fylgja henni svo áfram til dagsins í dag.  Að sjálfsögðu getum við aðeins stiklað á stóru, enda er þessi saga nokkuð löng og ótrúlega margir sem hafa skrifað hana.

En fyrst og fremst verður um viðamestu yfirferð SkonRokkshópsins að ræða, kraftmikla og vandaða og að sjálfsögðu er það þannig að þeir sem staðið hafa upp úr komast að í þetta skipti, aðrir verða að bíða betri tíma.

Við munum á næstu vikum kynna einhverja örfáa af þeim sem komast í gegnum nálarauga SkonRokkshópsins, en við viljum ekki ljóstra of miklu upp, því að tónleikagestir verða að fá að upplifa þessa sögu á sjálfum tónleikunum.  Við lofum hinsvegar magnaðri upplifun og kyngimögnuðu kvöldi sem þú ættir ekki að missa af.

SkonRokkshópinn skipa:

Birgir Nielsen – trommur, Ingimundur Óskarsson – bassi, Stefán Örn Gunnlaugsson – hljómborð, Einar Þór Jóhannsson – gítar, Sigurgeir Sigmundsson – gítar, Ragnar Már Gunnarsson – gítar, Magni Ásgeirsson – söngur, Birgir Haraldsson – söngur, Eyþór Ingi Gunnlaugsson – söngur, Pétur Örn Guðmundsson – söngur, Stefán Jakobsson – söngur.

Og nú bætist nýr meðlimur í hópinn Stefanía Svavarsdóttir – frábær söngkona sem litar sýninguna enn frekar.

Sem sagt þéttur og hæfileikaríkur hópur sem á það sameiginlegt að elska ROKK þar sem töfrararnir verða til og töffararnir líka.