Fara í efni
Dags Tími
02 .sep '16 12:00

Léttleiki og dauðans alvara í Hömrum föstudaginn 2. september. 

Þóra og Anda tefla saman tveimur perlum úr heimi fjórhentrar píanótónlistar í fyrstu Föstudagsfreistingum vetrarins. Verkin eiga fátt sameiginlegt. Ungur Claude Debussy samdi svítuna sína í “dægurlagastíl” síns tíma og tónlistin er enn í dag einkar ljúf áheyrnar. Schubert var aðeins nokkrum árum eldri þegar hann samdi fantasíuna sína, en var þá þegar dauðvona og lést örfáum mánuðum síðar. Í verkinu má glöggt greina fyrirboða dauðans í myrkum hljómum og tregafullum laglínum.

Anda Kryeziu er frá Kosovo en hefur frá árinu 2011 stundað háskólanám í píanóleik og tónsmíðum í Sviss. Hún hefur unnið ýmsar keppnir í heimalandi sínu sem og á Ítalíu, og er styrkþegi B.O.G. og Atdta Foundation í Sviss. Ásamt því að njóta velgengni sem tónskáld kemur hún reglulega fram á tónleikum. Núverandi píanókennari hennar er Konstantin Lifschitz.

Þóra er Akureyringur en fluttist einnig til Sviss árið 2011 til að stunda tónlistarnám með Yvonne Lang sem aðalkennara. Þóra fékk styrk úr styrktarsjóði Birgis Einarsonar árið 2014 og frá KEA árið 2011. Auk námsins í Sviss sækir hún tíma til Katia Veekmans í Hollandi, og hefur tekið þátt á ýmsum Masterclass-námskeiðum m.a. í Sviss, Svíþjóð og Belgíu.