Fara í efni
Klassískir tónleikar
Dags Tími
10 .júl '15 14:00
Verð: 2900

Menningarfélag Akureyrar (MAk) hefur sett saman metnaðarfulla menningardagskrá fyrir sumarið. Gert er ráð fyrir uppákomum nær alla daga í sumar og fara þær fram í Menningarhúsinu Hofi klukkan 14 og 20 á daginn. Dagskráin ber yfirskriftina Menningarsumarið í Hofi eða Summer Events in Hof og er í senn ætluð heimamönnum sem erlendu og innlendu ferðafólki.

Föstudaginn 10. júlí kl.14 munu Elfa Dröfn Stefánsdóttir mezzósópran og Sólborg Valdimarsdóttir píanóleikari leiða saman hesta sína og flytja
tónleika undir yfirskriftinni “Söngvar um ástina og lífið” í Hömrum, Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Á efnisskránni eru íslenskar og norrænar söngperlur, fjórir tregasöngvar eftir Hreiðar Inga ásamt aríum eftir Bizet og SaintSaens.
Elfa Dröfn Stefánsdóttir stundaði nám í Glasgow við The Royal Conservatoire of Scotland þaðan sem hún lauk mastersgráðu frá óperudeild skólans sumarið 2014. Áður hafði hún lokið einsöngvaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík þar sem hún stundaði söngnám undir leiðsögn Írisar Erlingsdóttur og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Elfa Dröfn söng nokkur óperuhlutverk á námstímanum og hefur komið fram sem einsöngvari við ýmis tilefni.
Sólborg Valdimarsdóttir hóf píanónám við Tónmenntaskóla Reykjavíkur átta ára gömul. Eftir það lá leið hennar í Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem Peter Máté var hennar aðalkennari. Vorið 2009 lauk hún Bachelornámi við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peter Máté og lauk síðan
mastersprófi í píanóleik vorið 2011 frá Det Jyske Musikkonservatorium. Sólborg hefur spilað einleik og komið fram með ýmsum kammerhópum hér heima og í Danmörku meðal annars á Tónlistarhátíðinni Bergmál á Dalvík, Tónlistarhátíð Unga fólksins og Tónlistarhátinni Opus í Aarhus. Meðfram tónleikahaldi hefur Sólborg kennt á píanó í Danmörku og á Íslandi. Sólborg lauk diplómanámi í listkennslu við Listaháskóla Íslands vorið 2014.

Það er Tónlistarfélag Akureyrar í samvinnu við Menningarfélag Akureyrar sem stendur að þessum tónleikum. Miðaverð er 2900 krónur.

 

Tónleikarnir fara fram í Hömrum tónleikasal í Hofi og 1862 Nordic Bistro verður með opið bæði í mat og drykk á meðan á tónleikum stendur